Birgir Leifur Hafþórsson, GKG. Photo: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | október. 20. 2012 | 07:00

Birgir Leifur komst áfram!!! Lék lokahringinn í Mississippi á 69 og varð í 16. sæti!!!

Birgir Leifur Hafþórsson, afrekskylfingur úr GKG, er kominn áfram á næsta stig úrtökumóts fyrir PGA Tour!!! Frábært hjá Birgi Leif – Innilega til hamingju!!!

Birgir Leifur hélt þesssu spennandi alla 3 fyrstu daga úrtökumótsins, en hann var alltaf 2-3 höggum frá því að vera í hóp þeirra 16, sem komast áttu á 2. stig úrtökumótsins.

Þar til nú í gær.

Þá spilaði Birgir Leifur á 69 höggum. Hann byrjaði á 1. teig og byrjaði mjög vel; fékk fugla á 2. og 5. flöt. Og velgengnin hélt áfram Birgir Leifur var með fugla á 10. og 12. flöt og allt útlit fyrir að stefnan „go low“ væri að skila sér – tækist Birgi Leif að halda sér á parinu það sem eftir væri þ.e. næstu 6 brautir væri hann á skori upp á 66 högg. Það var hins vegar ekki í spilunum.  Það kom  slæmur kafli í spil okkar manns; hann fékk skolla á 13., 14. og á 16. braut, en hins vegar verður að segja það Birgi Leif til varnar að seinni hluti vallarins þykir erfiðari, sérstaklega kaflinn frá 14.-16. braut en einmitt á tvær holur þar fékk Birgir Leifur skolla.

Samtals lék Birgir Leifur á 3 undir pari, 277 höggum (69 71 68 69) og landaði hinu mjög svo mikilvæga 16. sæti, sem hann deildi með KC Lim frá Texas og Ted Brown frá Virginíu. En þetta var alveg á því tæpasta, mátti ekki muna 1 höggi!

Aðrir þekktir af Evrópumótaröðinni sem einnig spiluðu sig á 2. stig úrtökumótsins eru Hollendingurinn Tim Sluiter og Frakkinn Romain Wattel. Hins vegar tókst tvöföldum risamótsmeistara, Argentínumanninum Angel Cabrera því miður ekki að spila sig á næsta stig en hann lauk keppni á 4 yfir pari, á samtals 284 höggum (72 70 70 72).

Efstur í úrtökumótinu varð Bandaríkjamaðurinn Joel Dahmen frá Washington-ríki, á samtals 14 undir pari, 266 höggum (66 64 67 69), en hann spilaði lokahringinn á 69 höggum líkt og Birgir Leifur og átti 3 högg á þann sem varð í 2. sæti, Bandaríkjamanninn Tommy Medina frá Arizona.

Til þess að sjá úrslitin á úrtökumótinu í Madison, Mississippi SMELLIÐ HÉR: