Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 4. 2015 | 12:05

Birgir Leifur keppir í Sviss

Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, hóf leik í dag kl. 11.45 að íslenskum tíma á móti á Áskorendamótaröðinni í Sviss. Mótaröðin er sú næst sterkasta í Evrópu og er þetta fyrsta mótið á þessu ári sem Íslandsmeistarinn úr GKG kemst inn á. Birgir leikur einnig á Áskorendamótaröðinni í næstu viku á móti í Belgíu.

Fylgjast má með stöðunni í mótinu með því að SMELLA HÉR: 
Birgir hefur leikið á nokkrum mótum á Nordea Ecco mótaröðinni á þessu tímabili en hann er með takmarkaðann keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni.

„Einu væntingar mínar fyrir þetta mót eru að hugarfarið og ákvarðanatakan verði í lagi. Og að ég slái eins mörg góð golfhögg og ég mögulega get í þessu móti. Þá verð ég sáttur,“ sagði Birgir Leifur í morgun við golf.is.
Það er að miklu að keppa á Áskorendamótaröðinni því með góðum árangri er hægt að opna glugga inn á sjálfa Evrópumótaröðina. Birgir Leifur er eini íslenski karlkylfingurinn sem hefur tryggt sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni en það gerði hann árið 2006.
Á síðasta ári fékk Birgir aðeins tækifæri á einu móti á Áskorendamótaröðinni en mótið í Sviss verður 98 mótið á ferlinu hjá Birgi á þessari mótaröð. Gera má ráð fyrir að hann fái tækifæri á um 10 mótum á þessu ári á mótaröðinni.
Á Evrópumótaröðinni hefur Birgir Leifur keppt á 58 mótum alls og er besti árangur hans 11. sætið á Opna ítalska meistaramótinu árið 2007.