Birgir Leifur Hafþórsson verður með í Flórídaferðinni. Mynd: Golf 1.
Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 4. 2013 | 20:00

Birgir Leifur á 70 á 3. degi

Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, stóð sig vel  í dag, á 3. hring úrtökumótsins á Lumine golfstaðnum í Tarragona, á Spáni.

Hann lék á 1 undir pari, 70 höggum og er T-41, þ.e. deilir 41. sætinu með 3 öðrum kylfingum.

Aðeins 20 efstu komast áfram á lokaúrtökumótið í Girona í desember n.k. og ljóst að Birgir Leifur verður að vera einbeittur á morgun og eiga feykigóðan hring til þess að komast til Girona.

Birgir Leifur er samtals búinn að spila á 2 undir pari, 211 höggum (70 71 70).  Efsti maður, Englendingurinn Chris Hanson, hefir leikið á samtals 201 höggi (64 70 67) þannig að það munar að meðaltali 3 höggum á hverjum hring á honum og Birgi Leif.

Ekki er öll nótt úti enn. Segjum að Hanson léki á sléttu pari, 71 höggi, á morgun þá væri hann á samtals 272 höggum. Birgir Leifur yrði þá að spila á 60 höggum til þess að ná efsta sætinu, þ.e. vera á 271 höggi, sem er fremur ólíklegt að gerist eða vera á 61 höggi til að jafna við Hanson (61 höggi, líkt og Fannar Ingi var á, á Hellu!!!) að því gefnu að Hanson verði yfirleitt á pari.

En framangreint s.s. ekki endilega markmiðið … aðeins að ná að verða meðal efstu 20!

Fyrir lokahringinn eru þeir sem eru T-16 (9 kylfingar) búnir að leika á samtals 6 undir pari, hver.  Það eru því 4 högg sem Birgir Leifur verður nauðsynlega að vinna  upp.  Hann yrði helst að eiga hring upp á 4 undir pari, 67 (og stóla á að einhverjir af þessum 9 eigi ekki sína bestu hringi) eða vera á 5-6 undir pari  þ.e. 65-66 höggum til þess að vera öruggur.  Það er ljóst að Birgis Leifs bíður afar erfiður hringur á morgun og vonandi að honum gangi sem allra best.

Hér má sjá stöðuna í Tarragona fyrir lokarhringinn SMELLIÐ HÉR: