Ragnheiður Jónsdóttir | september. 6. 2013 | 14:30

Birgir á samtals 2 undir pari eftir 2. hring

Birgir Leifur Hafþórsson, GKG lauk 2. hring á Open Blue Green Côtes d’Armor Bretagne mótinu í Pléneuf, Frakklandi, á 3 yfir pari, 73 höggum og er því samtals á 2 undir pari, 138 höggum (65 73).

Birgir Leifur byrjaði á 1. teig í morgun, eftir að hafa lokið við 6 holur sem hann átti eftir af  1. hring eldsnemma í morgun.

Birgir Leifur  spilaði því í raun 24 holur í dag.

Á 2. hring fékk hann skolla á 4. holu sem hann tók aftur á 8. holu með fugli en fékk síðan aftur skolla á 9. holu. Fyrri 9 spiluðust því á 36 höggum.

Síðan fékk Birgir Leifur slæman skramba á 10. holu sem hann náði að hluta strax aftur á 11. holu með fugli og öðrum fugli á 13. holu,  en fékk síðan slæman þrefaldan skolla (7 högg) á par-4 14. holuna, sem hann átti líka í vandræðum með í gær. Hann rétt náði að laga þann slæma skolla með 1 fugli á 15. holu og 3 yfir pari niðurstaða dagsins, sem hlýtur að vera svolítið svekkelsi eftir glæsibyrjunina!

En Birgir Leifur er floginn í gegnum niðurskurð og bara spurning hvað hann gerir á morgun og hinn því hann spilar svo sannarlega um helgina!

Til þess að sjá stöðuna á Open Blue Green Côtes d’Armor Bretagne mótinu SMELLIÐ HÉR: