Joe og Hunter Biden
Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 1. 2023 | 08:00

Biden týnir golfbolta á bandarísku Jómfrúareyjum

46. forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, var í jólafríi á St. Croix, en eyjan telst til hinna bandarísku Jómfrúareyja (ens.: US Virgin Islands).

Hann er væntanlega á heimleið núna, því hann á að vera mættur aftur til vinnu í Washington DC, á morgun, 2. janúar 2023.

Eins og svo margir Bandaríkjaforsetar spilar Joe Biden golf, en ólíkt ýmsum forverum sínum, einungis í frítíma sínum.

Hinn 80 ára Biden nýtti jólafríið sitt í ár einmitt til golfiðkunar.

Hann fór m.a. hring með 16 ára barnabarni sínu, Róbert, sem alltaf er kallaður Hunter, á Buccaneer golfvellinum í Christiansted, á St. Croix … en varð fyrir því óláni að týna einum bolta sinna… og hefir því væntanlega þurft að taka Mulligan.

Á myndinni hér að neðan má sjá Biden (í drifhvítum golfbol, dökkbláum stuttbuxum og ljósbláu deri) ásamt leyniþjónustumönnum leita að golfboltanum.

Biden ásamt leyniþjónustumönnum að leita að golfboltanum sínum

Allt kom fyrir ekki. Boltinn fannst ekki fyrr en seinna um daginn af 8 ára strák, sem var á ferð í golfbíl, með foreldrum sínum. Foreldrarnir sögðust gjarnan myndu skila boltanum, færi Biden fram á það, annars myndu þau halda honum sem minjagrip.