Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 23. 2012 | 12:00

Bestu par-3 brautir í heiminum (nr. 8 af 10)

Nú er komið að bestu par-3 holu í Asíu. Þar vandast málið. Þær 7 sem nefndar hafa verið eru allt heimsþekktar par-3 holur – holurnar í Asíu hafa e.t.v. ekki enn öðlast þá hefð.  En það er gnægð fallegra par-3 hola – spurningin er bara hver er best.

Sú sem valinu er hér er í Thaílandi og er par-3 17. holan á Blue Canyon Country Club í Phuket. Golfvöllurinn hefir hlotið fjölda viðurkenninga fyrir að vera besti og vinsælasti golfvöllur Asíu og 17. holan hefir verið á lista Golf Magazine yfir 500 bestu golfholur heims (par-4 og par-5 meðtaldar). Tiger Woods á að hafa sagt um völlinn (að vísu 1998) að hann sé einn sá besti sem hann hafi spilað á og Fred Couples sagði um par-3 17. holuna að hún væri ein af bestu par-3 holum í heiminum.  Hún er 221 yarda löng af öftustu teigum og 178 af rauðum. Völlurinn var hannaður af japanska golfvallararkítektnum Yoshikazo Kato.  Samt verður að gjalda varhuga við – allar hrósgreinar um völlinn eru skrifaðar fyrir 2005 – ef nýrri heimildir eru lesnar, sjást vangaveltur sumra hvort völlurinn sé að verða gjaldþrota; hann sé fullur af rusli og nauðsynlega þurfi að gera hann upp – völlurinn og þar með 17. brautin standi ekki undir væntingum og um oflof golffréttamiðla sé að ræða.

Þar af leiðandi verða hér líka nefndar nokkrar aðrar  spennandi  par-3 brautir í Asíu:

2. Par-3 2. holan á Palm golfvelli Saujana Golf & Country Club í Malasíu er spennandi. Það er frumskógargolf upp á sitt besta og að mati CNN erfiðasta braut Malasíu. Hún er 204 yarda löng (173 metra löng) af öftustu og slá verður yfir gjá með frumskóg í og þá er komið á flöt sem er byggð á 3 stöllum umkringd sandglompum og frumskóg. Að sögn CNN: „Deadly but beautiful. Jungle golf at its very best.”

Par-3 2. braut Palm golfvallarins í Saujana Golf & Country Club.

3. Royal Calcutta Golf Club á Indlandi er elsti golfklúbbur í heimi utan Englands og Skotlands stofnaður 1829.  Þar eru tvær par-3 brautir (alveg eins og á St. Andrews) 2. brautin og 13. brautin. Brautirnar eru frekar flatar með örsmáum flötum.

4. Pinx golfvöllurinn á Jeju eyju, Suður-Kóreu státar af nokkrum flottum par-3 holum, en völlurinn var sá fyrsti í Kóreu til þess að vera valinn meðal 100 bestu í heiminum – það sama er að segja um Nine Bridges golfvellina 2, sem líka eru á Jeju eyju en þeir eru taldir bestu golfvellir Suður-Kóreu, og líka meðal 100 bestu í heiminum. Af mörgum fallegum par-3 á Nine Bridges mætti e.t.v. nefna  par-3 2. braut Creek golfvallarins, sem er meðal fegurri brauta vallarins.

5. Mission Hills í Kína er ekki í miklu uppáhaldi hjá heimsins besta, Rory McIlroy, en hann er stærsti golfstaður í heimi, á honum eru hvorki fleiri né færri en 12 18 holu golfvellir, með mörgum spennandi par-3, sem of langt mál væri að gera öllum skil hér.

6. Í Japan eru það Hirono og Kawana golfvellirnir, sem taldir eru bestir. Kawana hefir verið kallað „Pebble Beach“ Japan, með tignarlegt Fuji fjallið í baksýn.  Hirono er talinn 42. besti golfvöllur heims og einkennisbraut vallarins er einmitt par-3 13. brautin, sem talin er líkjast „Golden Bell“ 12. holu Augusta National.

Par-3 13. brautin á Hirono golfvellinum í Japan

Hér að lokum er síðan vert að geta Greg Norman hannaða Nirvana golfvallarins á Balí, sem m.a. er í uppáhaldi hjá Óla Þór, framkvæmdastjóra Golfklúbbsins Keilis.  Einkennisbraut Nirvana er einmitt par-3 7. brautin, sem er ein mest ljósmyndaða par-3 braut Asíu í miðjum hrísgrjónaakri og með upphækkaða flöt.

Par-3, 7. brautin á Nirwana golfvellinum á Bali