Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 24. 2013 | 15:00

Bernhard Gallacher: „Glaður að vera á lífi“

Bernard Gallacher fyrrum atvinnumaður í golfi og fyrrum fyrirliði Ryder Cup liðs Evrópu fékk hjartaáfall á árinu og var um stund óttast um líf hans og talið að hann myndi ekki hafa það af.

Hann var á hóteli á leið á fund – það næsta sem hann man var að vakna á spítala og hann hafði misst viku úr lífi sínu.

Talið er að hinn 64 ára Gallacher sé einugis á lífi vegna þess að hótelið í Skotlandi, þar sem hann átti að halda ræðu, var með hjartastuðtæki.

„Þetta er skrítin tilfinning en það mun vera algengt að menn séu með minnistap eftir svona hjartastopp. Ég missti af öllu dramanu.“

Bernard hefir fundið nýjan tilgang í lífinu, en það er að tryggja að hjartastuðtæki sé til í öllum golfklúbbum í Bretlandi og Írlandi.

Hann segir: „Ég var með engan verk, það var engin viðvörun um hvað væri í vændum. Fólk segir bara að ég hafi skyndilega fallið. Líkt og boxari hafi slegið mig niður.“

„Mér finnst ég ótrúlega heppinn. Einn af gestunum á fundinum kunni hjartahnoð og síðan var stuðtækið notað á mig. Það er enginn efi í mínum huga að það bjargaði lífi mínu. Skv. allri tölfræði hefði ég ekki átt að hafa það af. Aðeins 1 af hverjum 10 lifa af hjartastopp og ég er einn af þeim.“

„Ég veit ekki hvort ég fékk fullkomið hjartastopp, en tækið  gerði sitt gagn. Það sem gerðist hefir svo sannarlega orðið til þess að ég er orðinn meðvitaðri um eiginn dauðleika. Þar til eitthvað svona gerist heldur maður að maður sé ódauðlegur.“

Bernard vill gjarnan leggja sitt af mörkum til þess að draga úr líkum hjartaáfalla og dauða í kjölfar þeirra en bara í Bretlandi einu deyja 60.000 árlega úr hjartaáfalli.