Ragnheiður Jónsdóttir | september. 18. 2013 | 10:00

Beatriz Recari: Kvenkylfingar ættu að hljóta sömu laun og karlkylfingar

Beatriz Recari hefir í nýlegu viðtali sagt að sér finnist að kvenkylfingar eigi að hljóta sömu laun og karlar á stærstu mótaröðum heims.

Beatriz Recari

Beatriz Recari

Gríðarlegt misvægi er í verðlaunafé sem bestu karlkylfingar heims hljóta annars vegar og bestu kvenkylfingar heims hins vegar.

Beatriz er 26 ára og hefir sigrað bæði á LPGA og LET og var nú síðast í sigurliði Solheim Cup (sem er svona einskona Ryder Cup keppni kvenkylfinga).

En kvenagolfið á í vandræðum með að laða að styrktaraðila eins og augljóslega kom fram á síðasta risamóti ársins hjá konunum, Evian Masters, sem stytt var í 54 holur ekki aðeins vegna illskuveðurs og úrhellisrigningar heldur einnig fjárhagslegra takmarkana.

„WTA (skammst. á World Tennis Association) er gott dæmi um íþrótt þar sem konur hafa náð sama stigi og karlar – þær spila um sama verðlaunafé – þannig að þetta ætti að vera langtímamarkmið fyrir okkur í golfinu að ná sama marki og vonandi verður það aðeins skammtímamarkmið,“ sagði Recari. 

„Á hverju ári bætist við keppnisdagskrá okkar. Karlkylfingarnir spila í 50 vikur og við keppnum í 32 vikur á næsta ári. Við þurfum enn að bæta við mótum en það væri kjörið að keppa um sömu verðlaunafjárhæðir. Eftir því sem áhuginn eykst á kvennagolfi í gegnum Solheim, LPGA, styrktaraðila og eftir því sem við fáum fleiri áhorfendur, þeim mun meiri líkur eru á að allt komi saman.“ 

„Vonandi dag einn, þegar ég er enn að keppa, munum við keppa í sömu viku og karlarnir fyrir sama verðlaunafé. Ég dáist að því hvað WTA hefir gert og vonandi geta mótaraðirnar í golfinu unnið í áttina að sama takmarki (og WTA).“ 

„Það er mikilvægt að vekja athygli á golfinu. Í lengri tíma var golf þekkt fyrir að vera snobbuð íþrótt; hún var dýr; hún var eitthvað fyrir ríkt fólk. Ég vil að fólk viti að golf er allt eins dýrt og aðrar íþróttir og mun auðveldara að byrja en það hefir nokkru sinni verið,“ bætti Recari við. 

„Þetta er frábær íþrótt, góður félagsskapur; og allir geta keppt við alla. Það eru engin aldurstakmörk, það þarf ekki að vera nein agressívitet og maður meiðist ekki eins mikið og í öðrum íþróttum. Maður spilar í 5 tíma og getur notið félagsskaparins og leikið alla lífstíð. “ 

„Pabbi spilaði ekki það mikið golf en ég gat samt farið og spilað í skemmtilegri keppni við hann. Það er ekki hægt í tennis. Maður myndi gjörsigra pabba um leið og hann er 50 eða 60. Golfið hefir allt. En þegar allt kemur til alls keppir maður alltaf við sjálfan sig, sem er besti parturinn.  Það er mikið um andlegar baráttur …. það er ekki hægt að þvinga andstæðing til þess að tapa. Golf náði tökum á mér allt frá byrjun. Það hefir allt. Það er svo mikið við þessa íþrótt og maður er alltaf svo langt frá fullkomnun. Ég vil endilega að fólk uppgötvi golfið og njóti þess.“