Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 28. 2012 | 16:15

Bandaríska háskólagolfið: Valdís Þóra á Louisiana Cards Challenge mótinu

Valdís Þóra Jónsdóttir, GL og Texas State tekur þátt í 3 daga móti sem fram fer á hinum glæsilega 6.106 yarda golfvelli Weston Hills Country Club, nálægt Miami, í Flórída. Það er University of Louisville, sem er gestgjafi mótsins. Í gær voru spilaðar 36 holur og í dag verða síðustu 18 spilaðar, en þetta er 2 daga, 54 holu mót.

Lið 14 háskóla taka þátt í mótinu þ.e. Louisville, Missouri, Texas State, Kansas, NC State, Florida International, Cincinnati, Miami, UNCW, South Florida, Memphis, East Tennessee, Delaware og Southern Mississippi. Texas State háskóli Valdísar Þóru er í 2. sæti eftir fyrri daginn.

Valdís Þóra og stelpurnar í Texas State liðinu. Valdís Þóra er lengst til hægri. Aðrar á myndinni eru: Gabby De Reuck, Caitlin Bliss, Mara Puisite, Lejan Lewthwaite og Iman Nordin. Mynd: Í eigu Valdísar Þóru.

Valdís Þóra er búin að spila einstaklega vel, er samtals á parinu eftir fyrri daginn, á samtals 144 höggum (74 70) og í 4. sæti. Verið er að spila lokahring mótsins sem stendur.