Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 12. 2015 | 09:00

Bandaríska háskólagolfið: Stefanía Kristín og Pfeiffer luku leik í 11. sæti

Stefanía Kristín Valgeirsdóttir, klúbbmeistari GA 2014 og golflið Pfeiffer, The Falcons tóku þátt í Pfeiffer Invitational sem fram fór í Hilton Head í Suður-Karólínu.

Mótið fór fram dagana 9.-10. mars s.l. og voru þátttakendur 5 manna golflið 19 háskóla, eða yfir 100 þátttakendur þegar taldir eru þeir sem aðeins tóku þátt í einstaklingskeppninni.

Stefanía Kristín lék á samtals 166 höggum og varð T-52.

Hún var á 3. besta skori í liði sínu, The Falcons, sem voru gestgjafar mótsins og höfnuðu í 11. sæti í liðakeppninni.

Næsta mót Pfeiffer er Wingate Invitational sem fram fer í Charlotte, Norður-Karólínu, 23.-24. mars n.k.