Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 15. 2012 | 19:20

Bandaríska háskólagolfið: Ólafía Þórunn spilaði lokahringinn á ACC Women´s Golf Championship á 68 höggum! Varð í 2. sæti!

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR og Wake Forest spilaði 3. hring á ACC Women´s Golf Championship mótinu á -3 undir pari, 68 glæsilegum höggum!!! Hún varð í 2. sæti ásamt Alejöndru Cangrejo frá Duke og Marina Salinas, frá Florida State. Lindy Duncan, sem er nr.1  á bandarísku háskólamótaröðinni sigraði á mótinu og „bláu djöflarnir“ í Duke unnu liðakeppnina. Lið Wake Forest varð í 3. sæti.

Fæstir gera sér grein fyrir hversu mikið afrek þetta er hjá Ólafíu Þórunni, því flatirnar á Sedgefield golfvellinum í Greensboro, Norður-Karólínu eru sleipar eins og parket líkt og þeir sem fylgdust með Ólafíu Þórunni í beinni hér á Golf 1 sáu. Ólafía Þórunn er að spila á næststærsta háskólagolfmótinu sem haldið er á Sedgefield golfvellinum. Á þessum velli er  t.a.m.Windham mótið spilað árlega, á bandarísku PGA mótaröðinni.  Webb Simphson (fyrrum Wake Forest nemi) vann það mót í fyrra og Ólafur Björn okkar Loftsson reyndi þar fyrir sér í fyrsta sinn á PGA mótaröðinni og var næstum kominn í gegnum niðurskurð.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR og Wake Forest. Mynd: Kristinn J. Gíslason

Mótshaldarar segja að völlurinn hafi aldrei verið erfiðari en hann er í dag og var því ekki reiknað með lágum skorum. Ólafía Þórunn er meðal fárra sem er undir pari, þ.e. átti 2 hringi undir pari sem er stórglæsilegt!  Alls spilaði Ólafía Þórunn á +3 yfir pari, samtals 226 höggum  (70 78 68).

Tekið var viðtal við Ólafíu á ACC.com vefsíðunni, sem sýndi beint frá mótinu. Ólafía sagðist hafa verið að slá vel og pútterinn hefði verið heitur, en hún vissi svo sannarlega hvernig væri að ráða ekki við eldhraðar flatirnar (spilaði 2. hring því miður á 78 í gær).  Hún var í 2. sæti þegar viðtalið var tekið og sagði að hún byggist við að Lindy Duncan, Duke, sem er í 1. sæti myndi spila vel, en hún átti 5 högg á Ólafíu þegar þarna var komið sögu. Ólafía heilsaði líka bræðrum sínum heima, sem væntanlega voru að horfa líkt og allir sem áhuga hafa á golfi á Íslandi!

Til þess að sjá úrslitin á ACC Women´s Golf Championship smellið HÉR: