Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 31. 2014 | 07:30

Bandaríska háskólagolfið: Ólafía Þórunn og Wake Forest í 3. sæti á Bryan mótinu – Berglind á besta skori UNCG

Íslandsmeistarinn okkar í holukeppni 2013, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR og golflið Wake Forest og klúbbmeistari kvenna í GR 2013, Berglind Björnsdóttir og golflið UNCG, tóku þátt í  Bryan National Collegiate mótinu.

Mótið fór fram á Bryan Park Champions golfvellinum í Browns Summit, Norður-Karólínu. Þátttakendur voru 96 frá 19 háskólum.

Ólafía Þórunn lék á samtals 16 yfir pari 232 höggum (78 73 81) og lauk keppni í 42. sæti í einstaklingskeppninni.  Þess mætti geta að skorið var hátt á línuna (þ.e. hjá öllum keppendum)  á 3. og síðasta hring vegna þess að veðrið var snarklikkað, hífandi rok og varla hægt að spila golf.

Berglind lék á samtals 24 yfir pari, 240 höggum (79 80 81) og varð í 82. sæti í einstaklingskeppninni. Berglind var á besta skorinu af liðsfélögum sínum í UNCG, sem enduðu í 18. sæti í liðakeppninni.

Ólafía Þórunn og Wake Forest tóku 3. sætið í liðakeppninni og var Ólafía Þórunn á 4. besta skorinu og taldi það því í 3. sætis árangrinum.

Næsta mót Ólafíu Þórunnar og Wake Forest er Dallas Athletic Club Invitational í Texas, 4. apríl n.k.  og næsta mót Berglindar og UNCG er Southern Conference Championship, sem fram fer á Hilton Head í Suður-Karólínu 13. apríl n.k.

Til þess að fylgjast með gengi Ólafíu Þórunnar og Berglindar SMELLIÐ HÉR: