Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 12. 2013 | 08:30

Bandaríska háskólagolfið: Ólafía Þórunn lauk keppni í 8. sæti á NCAA svæðamótinu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR  og golflið Wake Forest tóku þátt í NCAA Central svæðamótinu, sem fram fór í Jimmie Austin OU Golf Club, í Austin, Oklahoma dagana 9.-11. maí 2013. Mótinu lauk í gær. Þátttakendur voru 126 frá 24 háskólum.

Ólafía Þórunn lék 3. hringinn sinn í gær á glæsilegum 3 undir pari pari, 69 höggum og var með 6 fugla, 10 pör, 1 skolla og 1 skramba.

Ólafía Þórunn var á besta skori golfliðs Wake Forest og lauk keppni í 8. sæti einstaklingskeppninnar á samtals 215 höggum (72 74 69).

Golflið Wake Forest lauk keppni í 14. sæti í  liðakeppninni og komst því ekki í landsmótið, en aðeins efstu 8 háskólarnir komust  áfram í þá keppni.

Með glæsiárangri sínum er Ólafía Þórunn hins vegar búin að tryggja sér þátttökurétt í einstaklingskeppni landsmótsins, en 2 efstu kylfingar í þeim háskólum sem ekki komust á landsmótið hljóta þátttökurétt. Landsmótið fer fram í Georgíu 21.-24. maí n.k. og er mótið eitt sterkasta áhugamannamót, sem haldið er ár hvert.

Til þess að sjá úrslit á NCAA svæðamótinu SMELLIÐ HÉR: