Ragnheiður Jónsdóttir | október. 19. 2011 | 10:30

Bandaríska háskólagolfið: Arnór Ingi og lið Belmont Abbey urðu í 6. sæti á Will Wilson mótinu í Clemmons, Norður-Karólínu

Arnór Ingi Finnbjörnsson, GR og Belmont Abbey, tók þátt í 3 daga golfmóti, The Will Wilson/Tanglewood Intercollegiate, sem fram fór dagana 16.-18. október í Clemmons, Norður Karólínu.  Mótinu lauk í gær.

Lið Belmont Abbey varð í 6. sæti.  Arnór Ingi byrjaði glæsilega, var í 1. sæti eftir 1. dag á glæsilegu skori 68 höggum. Næstu tvo daga gekk ekki eins vel; Arnór Ingi spilaði á 77 höggum á 2. degi og 76 höggum í gær, lokadeginum, þ.e. var samtals á 221 höggi. Arnór Ingi lauk keppni með því að deila 17. sæti með öðrum (T-17)

Skor Arnórs Inga taldi, en tveimur í liði Belmont Abbey gekk þó betur en honum; þ.e. Taylor Inouye, (72 69 73) sem varð T-8 og Adam Hedges (70 77 68) sem varð T-11. Engu að síður átti Arnór besta hringinn af öllum liðsmönnum Belmont Abbey, glæsileg 68 högg fyrsta keppnisdag!

Þetta var lokahaustgolfmót Belmont Abbey, en lið Arnórs Inga keppir ekki næst fyrr en í mars 2012 og munum við hér á Golf 1 halda áfram að fygjast með gengi Íslandsmeistarans okkar í holukeppni í háskólagolfinu í Bandaríkjunum.