Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 7. 2012 | 07:00

Bandaríska háskólagolfið: Andri Þór og Kristján Þór bestir hjá Nicholls State

Ofurstarnir íslensku hjá Nicholls State, Andri Þór Björnsson, GR og Kristján Þór Einarsson, GK og Pétur Freyr Pétursson, GR fóru ásamt golfliði sínu í herferð til Bolabítanna í Samford háskóla í Birmingham, Alabama.

Samford Intercollegiate golfmótið fór að þessu sinni fram í Hoover Country Club og tóku þátt 93 kylfingar frá 18 háskólum: Samford (gestgjafar), Air Force, Austin Peay, Belmont, Davidson, Eastern Kentucky, Evansville, Houston Baptist, Illinois State, Murray State, Nicholls State, Sam Houston State, SIU Edwardsville, Southern Illinois, Tennessee-Martin, Tennessee Tech, Western Carolina og Winthrop.

Andri Þór Björnson, GR, lék á sínu fyrsta móti í bandaríska háskólagolfinu í Alabama.

Andri Þór og Kristján Þór léku best af liði Nicholls State, en báðir voru á samtals 232 höggum;  Andri Þór á (82 76 74) og Kristján Þór (78 77 77).  Pétur Freyr var á samtals 246 höggum (82 80 84). Þeir Andri og Kristján deildu 40. sætinu ásamt 4 öðrum en Pétur Freyr varð í 87. sætinu.

Nicholls háskólinn deildi neðsta sætinu T-17, en þar hafði m.a. áhrif að einn ofurstanna úr Nicholls State, Adrien Lc Sech lauk ekki keppni.

Gestgjafarnir voru ógestrisnir, Bolabítarnir hrifsuðu til sín 1. sætið, en best allra í mótinu lék einmitt einn Bolabítanna; Casey O´Toole, hann var á samtals 211 höggum (73 66 72).

Samford Bolabítarnir, gestgjafar mótsins, sem voru á heimavelli, sigruðu.

Til þess að sjá úrslit á Samford Intercollegiate smellið HÉR: