Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 28. 2018 | 07:00

Axel íþróttakarl Hafnarfjarðar

Íþrótta­fólk árs­ins 2018 í Hafnar­f­irði var valið í gær 27. desember 2018 á árlegri viðkenningarhátíð íþróttafólks í Hafnarfirði.

Axel Bóasson atvinnumaður í golfi og afrekskylfingur úr GK hlaut heiðursviðurkenninguna íþróttakarl Hafnarfjarðar 2018.  Hann hefir áður hlotið titilinn 2016. Axel er m.a. Íslandsmeistari í höggleik og stigameistari GSÍ árið 2018. Eins tók hann gullið á árinu, á Evr­ópu­móti at­vinnu­manna ásamt þeim Birgi Leif Hafþórssyni, Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur og Valdísi Þóru Jónsdóttur í blandaðri keppni og silfrið ásamt Birgi Leif á sama móti í tvímenningi. Frábær íþróttamaður þar sem Axel er og Hafnarfirði til sóma!

Alls voru 500 einstaklingar, sem hlutu viðurkenningar á hátíðinni, íþróttakona Hafnarfjarðar 2018 var valin Sara Rós Jakobsdóttir úr Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar og íþróttalið Hafnarfjarðar 2018 er meistaraflokkur karla og kvenna í frjálsum hjá FH. Auk þess var 20 milljónum veitt úr sjóði sem Rio Tinto á Íslandi, ÍBH og Hafnarfjarðarbær komu á laggirnar og veitt er til íþróttastarfs 18 ára og yngri.

Á mynd: Sara Rós Jakobsdóttir og Axel Bóasson.