Peter Uihlein var í bandaríska háskólagolfinu með liði Oklahoma
Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 26. 2012 | 11:00

Áskorendamótaröðin: Peter Uihlein keppir á Indlandi

Það getur verið að rjóminn af golfheiminum sé samankominn í Abu Dhabi en Indland er staðurinn… a.m.k. til langs tíma … sem e.t.v. á eftir að hafa mest áhrif á fyrrgreindan heim til langs tíma. Það er á Indlandi, nánar tiltekið á Gujarat Kensville Challenge, á Áskorendamótaröðinni, sem Walker Cup stjarnan og einn fremsti áhugakylfingur heims til skamms tíma, spilar í fyrsta móti sínu sem atvinnumaður.

Honum tókst ekki að tryggja kortið sitt beggja vegna Atlantsála, en hinn 22 ára erfingi Accushnet veldisins, sem m.a. á Titleist og Footjoy vörumerkin ætlar að spila á Áskorendamótaröðinni til þess að safna sér dýrmæta reynslu.

Uihlein sagði m.a. í viðtali við EuropeanTour.com:

„Áskorendamótaröðin er frábær uppeldisstöð þeirra sem ætla sér að spila á Evróputúrnum, þannig að ég hlakka til að spila við strákana þarna. Ég á þátttökurétt á nokkrum mótum á Áskorendamótaröðinni og Evróputúrnum m.a. í Dubai í næstu viku og Qatar vikuna þar á eftir, þannig að þetta er góð upphitun.“

Með Uihlein í holli eru Phillip Archer og indverska golfstjarnan Gaganjeet Bhullar.