Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR. Mynd: golf.is
Ragnheiður Jónsdóttir | október. 11. 2019 | 23:30

Áskorendamótaröð Evrópu: Guðmundur T-3 á Írlandi e. 2. dag!

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, atvinnukylfingur úr GR, hóf leik á fimmtudaginn á Stone Irish Challenge atvinnumótinu. Mótið er hluti af næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu, Challenge Tour, og fer keppnin fram á Headfort Golf Club.

Guðmundur Ágúst er í góðri stöðu þegar keppnin er hálfnuð. Hann deilir 3. sætinu á samtals 7 undir pari, 137 höggum (70 67) með þeim Aaron Cockerill frá Kanada og Gavin Moynihan frá Írlandi og er aðeins tveimur höggum frá efsta sætinu.

Íslandsmeistarinn í golfi 2019 hefur leikið á fimm mótum á þessu tímabili á Áskorendamótaröðinni.

Hann tryggði sér keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni með því að sigra á þremur mótum á þessu tímabili á Nordic Tour atvinnumótaröðinni sem er í þriðja styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu.

Guðmundur Ágúst er í 139 sæti á stigalista Áskorendamótaraðarinnar eins og staðan er núna.

Besti árangur hans er 13. sæti en hann hefur komist í gegnum niðurskurðinn á þremur mótum af alls 5 það sem af er tímabilsins.

Sjá má stöðuna í mótinu með því að SMELLA HÉR: 

Texti: GSÍ