Ragnheiður Jónsdóttir | september. 10. 2015 | 09:00

Áskorendamótaröð Evrópu: Góð byrjun hjá Birgi Leif í Kazakhstan

Birgir Leifur Hafþórsson, úr GKG, hóf leik í morgun á gríðarlega sterku móti á Áskorendamótaröðinni sem fram fer í Kazakhstan. Verðlaunaféð á þessu móti er mun hærra en á sambærilegum mótum á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. Birgir Leifur, sem er sexfaldur Íslandsmeistari, fékk alls fjóra fugla á fyrsta hringnum í morgun en hann tapaði tveimur höggum á par 5 holum.

Alls lék Birgir á 70 höggum eða -2 og er hann þessa stundina í 18. sæti en besta skorið hingað til á danskur kylfingur sem lék á -9 eða 63 höggum.

Sjá má stöðuna í mótinu með því að SMELLA HÉR: 

Þetta er sjöunda mótið hjá Birgi á Áskorendamótaröðinni á þessu tímabili og það er að miklu að keppa fyrir hann að komast enn hærra á stigalistanum fyrir lokamótin. Hann er sem stendur í 88. sæti.
Þeir sem eru í sætum 1.-20. á stigalistanum í lok keppnistímabilsins fá keppnisrétt á sjálfri Evrópumótaröðinni, þeir sem eru í sætum 21.-45. fara beint inn í lokaúrtökumótið í haust fyrir Evrópumótaröðina, þeir sem eru 46.-90. sæti stigalistans fara beint inn á annað stig úrtökumótsins.

Sjötíu stigahæstu kylfingarnir í lok leiktíðar tryggja sér keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni á næsta ári og þeir sem eru í sætum 71.-120 eru nánast með fullan keppnisrétt. Birgir Leifur er í 88. sæti stigalistans þessa stundina og hann getur bætt stöðu sína á þeim lista með góðum árangri í Kasakstan.

Þetta er reyndar besti árangur Birgis á stigalista Áskorendamótaraðarinnar en hann hefur leikið á Áskorendamótaröðinni frá árinu 1999.