Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 22. 2012 | 10:00

Asíutúrinn: Risamótsstjörnur meðal þátttakenda á Ballantine´s Championship

Risamótsstjörnurnar Darren Clarke og YE Yang eru meðal þeirra sem þátt taka í  Ballantine’s Championship, en mótið fer fram í  Blackstone Golf Club, í höfuðborg Kóreu, Seúl, dagana 26.-29. apríl 2012.
Meðal annarra þekktra golfstjarna sem þátt taka í mótinu eru nr. 8 á heimslistanum: Adam Scott frá Ástralíu og liðsmaður Bandaríkjanna í Ryder Cup, Dustin Johnson.
Eins spilar Spánverjinn viðkunnanlegi Miguel Angel Jiménez í mótinu, sem og félagi hans úr Ryder Cup liði Evrópu Ian Poulter.
Christian Porta, framkvæmdastjóri Chivas Brothers, sagði: “Ballantine’s Championship hefir fest sig í sessi sem eitt af stærstu mótum í Asíu, með því að laða að sér heimsins bestu kylfinga. Við erum ánægðir með að styrkja þetta virta mót og lítum á það sem fjárfestingu okkar til langs tíma í heimsklassa golfi.“
Clarke, sem lyfti  Claret Jug á  Royal St George’s í júlí s.l. sumar hefir einsett sér að bæta öðrum titli í Asíu við þann sem hann á fyrir og vann á BMW Asian Open, 2008. Hann vonast til að stíga í fótspor landa síns, annars risamótstitilhafa, Graeme McDowell, sem vann fyrsta Ballantine´s mótið, árið 2008.
„Ballantine’s Championship er nýtt tækifæri fyrir mig og ég er mjög spenntur fyrir því,“ sagði Clarke. „Það verður frábært að vera á mótinu sem sigurvegari Opna breska. Claret Jug hefir ferðast um heiminn með mér í þó nokkrum mæli og það verður frábært að fara með verðlaunagripinn á stað sem hann hefir ekki séð áður!“  (Gaman hvernig Clarke persónugerir Claret Jug!)
Heimild: asiantour.com