Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 10. 2012 | 11:00

Asíutúrinn: Mardan Mamat leiðir þegar ICTSI Philippine Open er hálfnað

Mardan Mamat, frá Singapore, þessi sem á sama afmælisdag og Hlynur Geir Hjartarson, GOS, er í 1. sæti á ICTSI Philippine Open. Mamat, sem er 44 ára átti fremur tíðindalaust keppnistímabil í fyrra en hefir tekið sig á m.a. með því að fara í ræktina í keppnishlénu. Eins sagði hann að það að skipta tíma sínum milli Asíutúrsins og japanska PGA hafi skaðað leik hans. Hann hafi einfaldlega spilað yfir sig.

Í dag spilaði Mamat á 70 höggum og er því samtals búinn að spila á 139 höggum (69 70), þ.e. -5 undir pari samtals.

Eftir 2. hring fyrr í dag sagði Mamat m.a. á blaðamannafundi: „Ég ber mikla virðingu fyrir þessum golfvelli. Hann getur gert mann glaðan og óhamingjusaman. Ég vonast til að vera ánægður næstu tvo daga. Mér líkar nefnilega hvernig ég er að spila.“

Í 2. sæti eru 3 kylfingar: 2 heimamenn, Ferdinand Aunzo og Antonio Lascuna og Bandaríkjamaðurinn Ben Fox. Allir eru 3 höggum á eftir Mamt á samtals -2 undir pari, samtals 142 höggum hver.

Til þess að sjá stöðuna þegar ICTSI Philippine Open er hálfnað smellið HÉR: