Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 30. 2013 | 08:00

Asía g. Evrópu í nýrri liðakeppni

Í byrjun vikunnar þ.e. mánudaginn s.l. fór sú frétt eins og eldur í sinu um golfheimspressuna að verið væri að stofna til nýrrar keppni byggð að öllu leyti á Ryder Cup fyrirkomulaginu nema hvað liðin sem keppa myndu, myndu vera frá Asíu og Evrópu.

Mótið mun verða haldið 2. hvert ár í Malasíu.

Keppt verður um $ 4 milljónir (þ.e. um 1/2 milljarð íslenskra króna) og verða 10 kylfingar hvorrar heimsálfu sem mætast í fyrsta sinn 28. mars n.k.

Mótið fer fram í Glenmarie Golf and Country Club nálægt Kuala Lumpur.

Forsvarsmenn vona að keppnin verði jafn vinsæl og Ryder Cup.

Þannig sagði formaður Asian Tour Kyi Hla Han: „Ég trúi því að EurAsia Cup muni verða áköf keppni þar sem kylfingar beggja heimsálfa munu eigast við í sönnum anda golfleiksins og viðhafa gildi golfsins sem eru heilindi, heiðarleiki og fullkomnun.“

Charlie Tingey, framkvæmdastjóri EurAsia Golf, sem er stofnun sem hefir verið komið á laggirnar til að halda utan um mótið sagði að vonir stæðu til að mótið myndi koma fleirum kylfingum frá Asíu á heimssvið golfsins.

Forsvarsmenn Asian Tour  hafa þannig mikla trú á risandi stjörnum á borð við  Kiradech Aphibarnrat, og þeim sem eru eldri í hettunni s.s. Thongchai Jaidee, en báðir eru frá Thailandi, og vona að það auki vinsældir golfs í Asíu.

Tingey blés á áhyggjur að keppnin myndi e.t.v. ekki draga að sér bestu evrópsku kylfingana vegna tímasetningarinnar, en mótið er mánuði fyrir The Masters í Bandaríkjunum, þegar margir toppkylfingarnir halda sig á heimaslóðum til þess að fægja leikinn fyrir risamótið.

„Þetta er mót mótaraðanna. Það er ekki til nein fullkomin dagsetning. En við búumst við fullum stuðningi leikmanna,“ sagði Tingey.

Lið Asíu er þannig skipað að 4 efstu á stigalista Asian Tour komast sjálfkrafa að svo og efstu þrír á heimslistanum og síðan fær fyrirliðinn að velja 3 leikmenn.

Lið Evrópu er þannig skipað að það verða 4 efstu af 2013 Race to Dubai sem gefa kost á sér, 4 efstu sem gefa kost á sér af heimslistanum og fyrirliðinn fær að velja 2 leikmenn.

Hver leikmaður sigurliðs fær $300,000 (30 milljónir íslenskra króna) í vasann meðan hver leikmaður tapliðsins tekur heim $100,000 (10 milljónir íslenskra króna) – Ekki slæm 3 daga laun það … fyrir að spila golf!