Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 15. 2012 | 06:00

Asíutúrinn: Mardan Mamat sigraði á ICTSI Philippine Open

Það var hinn 44 ára Mardan Mamat frá Singapore (sem á sama afmælisdag og Hlynur Geir Hjartarson, GOS), sem sigraði á ICTSI Philippine Open s.l. sunnudag og batt þar með enda á 6 ára sigurleysi sitt.

Þetta er 3. sigur Mamat á Asíutúrnum.  Mamat lauk keppni á 4. hring á -1 undir pari þ.e. 71 höggi á Austurvelli Wack Wack Golf and Country Club’s og var samtals á 280 höggum.

Kóreanski kylfingurinn Mo Joong-kyung ógnaði sigri Mamat um skeið en lauk leik á 74 höggum og varð í 2. sæti en Filipseyingurinn Antonio Lascuna var á 69 höggum og deildi 3. sæti með Japananum Azuma Yano, sem lauk leik á 70 höggum.

Golfið er miskunarlaust á stundum og heimamaðurinn, táningurinn Miguel Tabuena komst biturlega að því en hann var aðeins 1 höggi á eftir Mamat fyrir lokahringinn, en eitthvað virðast taugarnar hafa gefið sig því hann lauk leik á 81 högg og hrundi niður skortöfluna í 11. sæti.

Eftir að stjaka boltanum stutt í holu á 18. braut féll Mamat á hnén og fagnaði. Hann táraðist síðar á blaðamannafundinum eftir mótið þegar hann var spurður að því hvort sér hefði flogið í hug á sigurlausu eyðimerkurgöngu sinni að hann myndi aldrei sigra aftur.

Mardan Mamat sagði: „Eiginkona mín (Naz) hvatti mig áfram og ýtti mér út í að æfa meira. Hún sagði þér þykir svo vænt um þessa íþrótt þannig af hverju að hætta? Það voru tímar þegar ég sagði að nú væri komið að því að ég yrði að snúa mér að golfkennslu en hún sagði að það væri ekki draumar mínar,“ sagði tárum þakinn Mardan Mamat.

Já, það er öllum kylfingum nauðsynlegt að hljóta stuðning!

Annars eru helstu úrslit ICTSI Philippine Open eftirfarandi:

280 – Mardan MAMAT (SIN) 69-70-70-71.

285 – MO Joong-kyung (KOR) 72-71-68-74.

287 – Antonio LASCUNA (PHI) 71-71-76-69, Azuma YANO (JPN) 69-75-73-70.

288 – Ben FOX (USA) 69-73-74-72.

289 – Adam BLYTH (AUS) 73-70-75-71, Paul DONAHOO (AUS) 71-72-74-72.

290 – Arnond VONGVANIJ (THA) 73-72-74-71, KIM Gi-whan (KOR) 71-75-72-72, HWANG Inn-choon (KOR) 77-72-67-74.

Á morgun er næsta mót á dagskránni á Asíutúrnum en það er Avantha Masters, sem fram fer á Indlandi.