Seve er uppáhaldskylfingur Ellerts
Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 7. 2012 | 19:45

Ár frá dánardægri Severiano Ballesteros (f. 9. apríl 1957 – d. 7. maí 2011)

Spænska goðsögnin Seve Ballesteros lést í dag fyrir ári síðan og var jarðsettur 4 dögum síðar í heimabæ sínum Pedreña á Spáni. Hann hefði orðið 55 ára 9. apríl í síðasta mánuði. Mitchell Platts skrifaði fallega minningargrein á dánardægri Seve, sem birtist á europeantour.com og fer hluti af henni hér í lauslegri þýðingu:

“Seve, bóndasonurinn, sem heillaði golfheiminn frá því augnabliki, sem hann neitaði að gefast upp á Royal Birkdale 1976 hefur tapað þeirri baráttu, sem jafnvel afburða hugrekki hans náði ekki að vinna.

Severiano Ballesteros Sota frá Spáni dó í dag (fyrir ári síðan, þ.e. 7. maí 2011) eftir hetjulega baráttu við illkynja heilaæxli, sem hann greindist með, eftir að hann missti meðvitund á flugvellinum í Madríd 5. október 2008. Hann gekkst undir 4 uppskurði á La Paz sjúkrahúsinu í Madríd til þess að fjarlægja æxlið og vinna á bólgunum, sem þrýstu á höfuðkúpu hans, sem og geislameðferð.

Á yfirburðaferli, en enginn evrópskur kylfingur hefir átt viðlíka feril, gefur að finna 5 risamótstitla, 50 sigra á Evróputúrnum, 37 aðra titla á heimsvísu og eftirtektarverðan Ryder Cup feril, en hátindurinn þar er sigur liðs hans sem hann stýrði sem fyrirliði 1997 í Club de Golf Valderrama á Spáni.  Ferli hans lauk við 40 ára aldurinn vegna gigtar í baki, en dauði hans við 54 ára aldurinn er ótímabær, sorglegur endur á lífi sem skreytti golflistina og gerði okkur öll ríkari fyrir vikið.

Ballesteros blandaði saman hæfileikum, andríki og viljastyrk, spilaði með hjartanu og lagði sig allan í keppnir þar sem hann tíaði upp. Milljónir á milljónir ofan um allan heim löðuðust að honum vegna ástríðu hans og snilldar. Það sem hann skilur eftir sig er ekki aðeins mælanlegt í titlum sem féllu honum í skaut, heldur einnig það hvernig hann vann þá. Hann lét varúð og tækni fara veg allrar veraldar. Það þurfti ekki að hafa gaman að golfi til þess að elska Seve.

George O´Grady aðalframkvæmdarstjóri Evrópumótaraðarinnar sagði:” Þetta er sorgardagur öllum sem elska golf. Einstök arfleifð Seve hlýtur að vera innblásturinn sem hann hefir veitt svo mörgum sem fylgjast með, styðja og spila golf og svo loks barátta hans við vægðarlausan, illkynjaða sjúkdóminn sem hann tókst á hendur með sama sjarmanum, ástríðunni og ákveðninni. Við höfum öll notið þeirrar blessunar að vera samtímamenn hans. Hann var innblásturinn og aðalhvatamaður Evrópumótaraðarinnar.”