Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 19. 2012 | 13:15

Anthony Kim snýr ekki til keppni fyrr en í mars 2013

Bandaríski kylfingurinn Anthony Kim verður frá keppni fram til a.m.k. mars 2013 vegna meiðsla á hásin, sem hann þurfti  í aðgerð út af s.l. júní og er að jafna sig af.  Honum var sagt að hvíla vinstri fót sinn í 9-12 mánuði og kemur því í fyrsta lagi til með að keppa aftur í mars.

Anthony Kim er fæddur á kvenfrelsisdaginn 19. júní 1985 og varð því 27 ára á þessu ári (á m.a. sama afmælisdag og japanska golfdrottningin Ai Miyazato!)

Kim var m.a. í síðasta sigurliði Bandaríkjamanna í Rydernum 2008 og á met fyrir flesta fugla á einum hring í Masters risamótinu, en það setti hann á 2. hring þegar hann fékk 11 fugla í Masters mótinu 2009 og sló þar með fyrra met Nick Price.

Meiðsl hans á hásininni koma í kjölfar meiðsla á þumalfingri.  Það er vonandi að hann jafni sig sem fyrst og nái að spila sig inn í lið Watsons í Rydernum 2014 því Kim er lítríkur og skemmtilegur kylfingur og aldrei að vita hvað Bandaríkjamenn gera þegar þeir mæta með sitt sterkasta lið!