Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 8. 2011 | 08:00

Annika spilaði í ADT Skills Challenge

Annika Sörenstam vann keppni með stuttum kylfum á ADT Skills Challenge, í gær mánudaginn 7. nóvember 2011, sem er fyrsta atvinnumannskeppnin í golfi, sem hún tekur þátt í í 3 ár.

Annika og félagi hennar Morgan Pressel unnu sér inn $161,000 fyrir 4. sætið í þessum fjórmenningi, en sigurvegarar urðu Zach Johnson og Jerry Kelly. Annika og Morgan eru fyrstu kvenkylfingarnir sem taka þátt í mótinu.

„Ég er með mikið keppnisskap þannig að það er frábært að koma í svona umhverfi aftur,“ sagði Annika, en bæði börnin hennar og foreldrar voru meðal áhorfenda. „Það er meiri nálægð og persónulegheit í svona móti meðal kylfinga, sem mér líkar.“

Morgan Pressel og Annika Sörenstam í ADT Skill Challenge

Annika sem á 93 alþjóðlega titla sem atvinnumaður, spilaði í fyrsta atvinnumannamóti sínu síðan 2008 þ.e. lokamóti keppnistímabilsins, ADT Championships. Annika var fyrsta konan til að taka þátt í ADT Skills Challenge, lauk keppni í 6. sæti.

Annika vann keppnina með stuttu járnunum (í gær) með því að setja bolta sinn u.þ.b. 1 meter frá holu. Morgan Pressel og Nick Price settu bæði niður högg sem þau slógu úr flatarglompu og Morgan vann í umspili þegar hún setti boltann aðeins 50 cm frá holu.

Zach Johnson og Jerry Kelly tryggðu sér sigurinn með lokapúttum sínum á þessu PGA-móti, sem verður á dagskrá í hjá bandarísku sjónvarpsstöðinni NBC núna um jólin, þ.e. 24. og 25. desember.

Annika horfir á eftir pútti sem ekki féll

Nick Price átti besta púttið – setti niður 5,5 metra pútt en liðsfélagi hans Mark O´Meara missti innan við 2 metra pútt og Nick Price líka.

Zach Johnson og Jerry Kelly hins vegar settu báðir niður 2 metra pútt sín og báru sigurorð af Nick Price og Mark O´Meara, sem áttu titil að verja. Þeir unnu sér inn $286,000 en O’Meara og Price fengu  $185,000 fyrir 2. sætið.

„Þegar spilaður er „öfugur scramble“ (ens.:  reverse scramble) þá verður að spila verri boltanum, og þá skiptir máli að spila vel og skilja höggin sem maður verður að slá,“ sagði Zach Johnson. „Báðir leikmenn fá síðan tækifæri til að pútta. Líkt og í hefðbundnu mótunum, þá er það spilið á flötinni sem skiptir öllu.“

Rocco Mediate og Nick Faldo sigruðu í keppninni um lengsta drævið og í keppni með mið-járnum og erfiðum höggum á The Breakers. En þeir töpuðu fyrir O´Meara og Price í „öfuga scramblinu“ og luku keppni í 3. sæti og unnu sér inn  $168,000.

Heimild: Golf Digest