Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 15. 2011 | 10:00

Annika Sörenstam: Hvernig golfið bjó mig undir að verða móðir

Á Golf1.is hefir hér á undanförnu mikið verið fjallað um kylfinga, sem foreldra. Luke Donald  efsti maður á peningalistum beggja vegna Atlantshafs segist hafa orðið betri kylfingur við fæðingu fyrstu dóttur sinnar, Elle, sbr. Luke, sem sagði m.a.: „Þegar ég lít aftur á fæðingu fyrsta barnsins míns Elle, þá hefir golfleikur minn bara orðið sterkari og sterkari frá þeim tímapunkti. Það var blessun að verða faðir, ég er orðinn ábyrgðarfyllri sem manneskja. Ég hef vaxið og orðið að betri manneskju. Hún er mér virkilega hvatning, bara að horfa á hana vaxa og læra nýja hluti, aðlagast og verða betri og betri en hún var í gær: það er það sem ég er að reyna að gera í golfinu, líka. Bara að reyna á hverjum degi að finna leið til að bæta mig. Það er það sem hún gerir á hverjum degi.”

Eins höfum við fjallað um fæðingu Pedro litla Conesa, 8. desember s.l., son fyrrum kvenkylfings nr. 1 í heiminum, Lorenu Ochoa. Sumum finnst að ekki eigi að fjalla um persónlegt líf golfstjarna, það komi golfi ekkert við – vilja aðeins lesa um nýjustu tæknina í útbúnaði, golfæfingar, niðurstöður helstu golfmóta, o.s.frv. – Einkalíf stjarnanna komi engum við.

Nú er það samt svo að kylfingar, þ.á.m. stjörnurnar eru bara mannlegar. Þær eiga afmæli eins og allir aðrir, þær eiga sínar vonir og þrár og uppáhaldshluti, þær finna til vegna veikinda eða skakkafalla í einkalífinu og að sama skapi gengur þeim vel þegar einkalífið blómstrar. Allt þetta hefir áhrif á golfleik þeirra. Þeir eru fleiri sem sjá það og hafa gaman af sem fjölbreytilegustu efni. Því verður hér fjallað um enn eitt kylfingsforeldrið.

Annika Sörenstam með Övu Madelyn McGee, dótur sinni. Er hún kvengolfstjarna framtíðarinnar? Hún er a.m.k. byrjuð að leika sér með golfbolta s.s. sjá má í meðfygljandi myndskeiði.

Það má segja að ekki séu margir samnefnarar með því að verða móðir og góð í golfi en Annika Sörenstam, sem lengi vel trónaði á toppnum og var langbesti kvenkylfingur heims í langan tíma sagði að fyrrum golfferill sinn hefði búið sig undir það að verða móðir fyrra barns síns, Övu Madelyn a.m.k. á 1 mikilvægan hátt:

„Sem atvinnukylfingur ferðaðist ég mikið og hélt alltaf að ég væri með mikið af farangri en það er ekkert miðað við það sem ég hef í dag,” sagði hún. „Nú eru það barnakerrur, bleyjupokar og barnastólar… þið vitið allt sem fylgir litlu barni, ég held að ferðalögin á túrnum forðum daga hafi búið mig undir það að fara um með þungan farangur og vera með fleiri pinkla.” Hún sagði það að verða foreldri hafi fært sér og eiginmanni sínum, Mike McGee gleði sem „erfitt sé að lýsa.”

„Það er hægt að tala við vini og fjölskyldu og þeir segja bara að það (að verða foreldri) sé það besta í lífinu.” sagði Annika. „Þarna forðum daga þegar ég hafði ekki hugmynd um hvað það var að vera móðir, þá var allt sem ég gat borið það saman við að sigra golfmót. Nú sé ég að það er í raun ekki hægt að bera þetta saman, ef ég yrði að gera það myndi ég segja að það væri eins og að vinna Grand Slam á hverju ári.”

Hér í lokin má sjá myndskeið af Anniku í hlutverki foreldris: ANNIKA OG AVA MADELYN

Heimild (að hluta):  www.europeantour.com og People Magazine, 7. maí 2010