Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 27. 2012 | 17:30

Anne-Lise Caudal sigraði á Uni Credit German Ladies Open

Það var franska stúlkan Anne-Lise Caudal, sem sigraði á Uni Credit German Ladies Open golfmótinu í dag eftir umspil við ensku golfdrottninguna Lauru Davies.

Báðar voru jafnar að loknu 72 holu spili og því kom til umspils, þar sem Caudal sigraði strax á fyrstu holu fékk fugl meðan Laura Davies varð að láta sér lynda par og 2. sætið í mótinu.

Í mótinu spiluðu bæði Anne Lise Caudal og Laura Davies á samtals -13 undir pari 275 höggum; Caudal (74 67 67 67) og Davies (69 71 68 67).

Fyrir sigurinn fær Anne-Lise Caudal glæsilega Audi-bifreið en þýski bílarisinn Audi er styrktaraðili mótsins.

Anne-Lise Caudal og glæsileg Audi bifreið sem hún hlýtur m.a. að sigurlaunum. Mynd: LET

Jafnframt hlýtur Anne-Lise Caudal € 52.500 (rúmlega 8 milljónir íslenskra króna).

Í 3. sæti varð enska stúlkan Rebecca Hudson 2 höggum á eftir Caudal og í 4. sæti voru ensku stúlkurnar Felicity og Trish Johnson og ástralska stúlkan Bree Arthur sem var ein af 3 sem leiddi eftir 3. hring í gær.

Til þess að sjá úrslitin á Uni Kredit German Ladies Open smellið HÉR: