Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 5. 2012 | 16:00

Angel Yin er aðeins 13 og yngst þeirra sem spila á US Women´s Open risamótinu í ár

US Women´s Open eða Opna bandaríska kvennamótið hefst nú í vikunni á Black Wolf Run golfvellinum í Kohler, Wisconsin.

Þegar Angel Yin gekk hljóðlega að æfingasvæðinu á lokaæfingu á Black Wolf Run þá var enginn sem bað hana um eiginhandaáritun og í raun ekki nokkur sem tók eftir henni.  Hún hélt líka höfðinu niðri.

En þrátt fyrir vöntun á athygli þá er nafn Yin á allra vörum í blaðamannaherberginu, því hún er yngst þeirra sem taka þátt í US Open að þessu sinni, 13 ára.  Setjum þetta aðeins í samhengi – hún var ekki einu sinni fædd þegar Se Ri Pak vann síðasta US Open sem haldið var á Black Wolf Run. Hún fæddist ekki fyrr en 3 mánuðum eftir það mót.

Yin er pínulítil, eitthvað um 1,60 á hæð en drævin hennar eru 280 yarda og hún er nákvæm og bein með nýja drævernum sínum.  Henni líkar vel við 7,5 gráðu loftið. Hún giskar á að það sé u.þ.b. 1 teighögg sem misheppnist hjá henni á hring, en það er tölfræði sem hún getur lifað með.

„Ég slæ langt, það er kostur,“ sagði hún um Pete Dye hannaða völlinn sem verður næstum 7000 yarda langur þessa vikuna.

Yin komst í gegnum úrtökumót í Industry Hills í Kaliforníu og spilar því í mótinu. Á pappírum hennar var sagt að hún væri atvinnukylfingur, en hún hristir höfuðið.  Hún er  áhugamaður, sem dreymir um að spila golf með golfliði Stanford dag einn.

Það er nokkuð sérstakt að hún spilar á fyrsta risamóti sínu en fékk ekki að vera með í US Girls Junior mótinu sem fram fer í Kaliforníu, heimaríki hennar af öllum stöðum. Yin vonast til að fá að spila á US Women´s Amateur.

„Ég er að einbeita mér að Opna bandaríska, þessu móti í augnablikinu,“ sagði Yin. „Ég er ekkert stressuð vegna þess að ég er ekki best,“ sagði hún „aðeins yngst.“

Heimild: Golfweek