Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 1. 2014 | 12:00

ALPG&LET: Anya Alvarez leiðir í Nýja-Sjálandi e. 2. dag – Ko í 2. sæti

Það er bandarísk stúlka, Anya Alvarez, sem leiðir eftir 2. dag á ISPS Handa New Zealand Women´s Open.

Alvarez ásamt Hyun Soo Kim frá Suður-Kóreu átti besta skorið á 2. degi mótsins 6 undir pari, 66 högg.

Samtals er Alvarez búin að spila á 8 undir pari, 136 höggum (70 66).

„Heimakonan“ Lydía Ko, sem allir héldu að myndi fara auðveldlega með að vera í toppsætinu er í 2. sæti annan daginn í röð!

Ko er búin að spila báða dagana á 69 höggum og er því samtals á 6 undir pari, 138 höggum (69 69).  Ástæða þess að undrabarninu okkar 16 ára, sem nú er orðin atvinnumaður gengur ekki betur er að hún var lögð á sjúkrahús með mikla magaverki og er að sögn ekki búin að neyta nokkurs matar í 24 tíma, sem gerir það að verkum að hún er fremur orkulaus á golfvellinum. Í ljósi þess gengur í raun kraftaverki nær að hún sé í 2. sæti!

„Ég var virkilega veik í nótt“ sagði nr. 4 á Rolex-heimslista kvenna (Lydía Ko), og var greinilega dregið af henni.

„Á einum tímapunkti ætlaði ég að draga mig úr mótinu en sem betur fer gerði ég það ekki. Þetta var magapína og ég fór á sjúkrahús. Þeir sögðu að þetta hefði eitthvað með görnina að gera og það var meira loft í mér en er venjulegt. Ég í raun veit ekkert hvað þetta er.“

Til þess að sjá stöðuna eftir 2. daginn á  ISPS Handa New Zealand Women´s Open SMELLIÐ HÉR: