Lydia Ko
Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 14. 2013 | 11:30

ALPG & LET: Lydia Ko efst eftir 1. dag ISPS Handa Australian Open á 63 glæsihöggum!!!

Í dag hófst í Ástralíu ISPS Handa Australian Open.

Í efsta sæti eftir 1. dag er ný-sjálenska telpan 15 ára, Lydia Ko, lék Royal Canberra golfvöllinn á 10 undir pari, 63 höggum.  Á hringnum fékk Ko örn, 11 fugla, 3 pör og 3 skolla.

Þessi hringur Ko á 10 undir pari er lægsti hringur í sögu  Women’s Australian Open, sló við lægsta hring Karrie Webb upp á 9 undir par, 64 högg á Yarra Yarra vellinum í  Melbourne, en Webb sigraði í því móti árið 2000. Hringur Ko upp á 63 högg er þó ekki viðurkenndur því skv. reglum mátti hreyfa boltann, vegna mikilla rigninga og því fær Ko metið ekki skráð.

Vel fór á með þeim Ko og Wie í dag.

Vel fór á með þeim Ko og Wie í dag.

Í holli með Ko í dag voru Michelle Wie, sem er mikið átrúnaðargoð Ko og nr. 1 á Rolex-heimslista kvenna Yani Tseng. Það fór vel á með þeim stöllum og báðum fannst þeim Tseng og Wie, Ko spila frábærlega. Yani sagði m.a. eftir hringinn: „Hún fær mig til þess að finnast ég gömul“ (en Yani varð 24 ára í janúar s.l. og er langt frá því að vera eitthvert hró.)

Ólíkari gætu þær þrjár ekki verið: Tseng kraftaleg og óhemju högglöng, Wie hávaxin og mikil og villt sleggja og Ko lítil og fíngerð, ekkert nema einbeitingin, nákvæmnin með takt og tímasetningu á hreinu.

Wie sagði eftirfarandi um litla aðdáandann sinn, Ko: „Hún er frábær kylfingur.  Sú staðreynd að hún hefir sigrað 3 sinnum á s.l. 53 vikum er frábær. Hún er líka virkilega næs. Hún er  með höfuðið rétt skrúfað á. Svo virðist hún bara vera krakki og ég vona að hún haldi áfram að vera þannig og haldi áfram að verða betri og betri. Ég vona að hún hafi gaman af þessu.“

Yani Tseng deilir 8. sæti var á 5 undir pari, 68 höggum (hún var ekki frá því að Ko hefði rifið sig upp af og til) og Michelle Wie spilaði á 1 yfir pari, 74 höggum eða á 11 högga lakara skori en Ko og er í hættu að ná ekki niðurskurði.

Í 2. sæti er Mariajo Uribe frá Kólombíu á 64 höggum þ.e. að eins 1 höggi á eftir Ko og í 3. sæti er fyrrum nr. 1 á heimslistanum Jiyai Shin frá Suður-Kóreu á 8 undir pari, 65 höggum.

Til þess að sjá stöðuna eftir 1. dag SPS Handa Australian Open SMELLIÐ HÉR: