Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 16. 2013 | 09:59

ALPG & LET: Ko og Shin í forystu fyrir lokahring ISPS Handa Australian Open

Það eru Lydia Ko og Jiyai Shin sem leiða fyrir lokahring ISPS Handa Australian Open.

Báðar eru þær búnar að leika á samtals 17 undir pari, 202 höggum; Lydia (63 69 70) og Shin (65 67 70). Báðar eru undantekningarlaust á braut, hreinlega kljúfa þær með óaðfinnanlegum höggum sínum og ótrúlega einföldum leikáætlunum.

Veðrið á Royal Canberra í morgun var heldur ekki til að kvarta undan, yndislega þægilegur hiti og glitrandi sólskin.

Hápunktur dagsins fyrir Shin var þegar hún setti niður glompuhögg við par-5 6. flötina.  Bönkerinn var svo djúpur að hún sá ekki einu sinni bolta sinn fara ofan í holuna. „Ég var of stutt til þess að sjá þetta“ sagði Shin eftir á.

Ko, fór út í næstsíðasta hollinu. Hún byrjaði vel fékk 4 fugla á fyrstu 10 holum sínum og var í forystu, en svo seig aðeins á ógæfuhliðina þegar hún fékk skolla á 12. og 14. braut, en hún lauk hringnum á fugli á 18. og jafnaði því við Shin en báðar voru á 70 höggum.

Þetta verður einvígi á milli þeirra því sú sem næst kemur á eftir þeim í 3. sætinu, Beatriz Recari, frá Spáni er heilum 6 höggum á eftir þeim stöllum. Recari er samtals búin að spila á 11 undir pari, 208 höggum (68 69 71).

Fimm deila síðan 4. sætinu þ.e. forystukona gærdagsins Mariajo Uribe frá Kólombíu, nr. 1 á Rolex-heimslistanum Yani Tseng, nr. 1 í Evrópu 2012 Carlota Ciganda, sú sem varð nr. 1 á lokaúrtökumóti Q-school LPGA 2012 Moriya Jutanugarn frá Thaílandi og gamla kempan Gwladys Nocera frá Frakklandi. Allar eru þær á  samtals 9 undir pari, 210 höggum og allar og þurfa þær kraftaverkahringi á morgun til þess að vinna upp þau 8 högg sem munar á þeim og forystukonunum.

Til þess að sjá stöðuna eftir 3. dag á ISPS Handa Australian Open SMELLIÐ HÉR: