Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 2. 2013 | 11:00

Ákvarðanir R&A um reglu 6-3 a – (4. grein af 5)

Þann  21. mars 2013 fór fram fræðslu- og umræðufundur dómaranefndar GSÍ um hvað gera megi til að bæta leikhraða á golfvöllum.

Þórður Ingason, alþjóðadómari ræddi á fundinum um „5 mínútna regluna“ svokölluðu, þ.e. reglu 6-3a í golfreglum R&A. Reglan gengur út á að ef kylfingur mætir allt að 5 mínútum of seint á teig eigi hann ávallt rétt á að hefja leik gegn viðurlögum upp á 2 högg í víti. Mæti hann seinna sætir hann frávísun, þ.e. mæti kylfingur meira en 5 mínútum of seint hlýtur hann frávísunarvíti.

Á reglu 6-3 a er undantekning. Þ.e. mótsnefnd (hér nefnd Nefndin) getur ákveðið að ekki skuli koma til þessara 2 högga í víti mæti kylfingur allt að 5 mínútum of seint, eigi sérstök undantekningartilvik við um kylfing, sem hafi orðið þess valdandi að hann mætti of seint á teig. Þessi undantekningtilvik eru túlkuð mjög þröngt.

Meðal efnis í ræðu Þórðar voru 5 nýlegar ákvarðanir R&A um túlkun á 5 mínútna reglunni. Golf 1 hefir þegar fjallað um þrjár af þessum 5 ákvörðunum R&A og hér fer ákvörðun nr. 4.

Úrlausnarefni ákvarðananna eru settar fram í spurnarformi og síðan ákvörðunin/reglan gefin í svari við spurningunni.

Spurning:
Leikmaður á rástíma kl. 9:00 fyrir hádegi. Hann kemur á teig kl. 09:06 þ.e. 6 mínútum of seint en af einhverri ástæðu (vegna veðurs, hægs leiks ,tafa eða vegna ákvörðunar dómara og/eða Nefndarinnar) hefir rástíma seinkað. Fær kylfingurinn að hefja leik eða sætir hann frávísun? Hvernig dæmist?
Svar: Þar sem ráshópurinn gat ekki hafið leik á þeim rástíma sem ákveðinn var og leikmaðurinn hefir mætt á teig áður en endurákveðinn rástími hefst, þá er ekki um brot hans á reglu 6-3a að ræða.
Svipuð ákvörðun R&A er nr. 33 3/2 en þar var leikmaður ekki kominn á rástíma sínum, en völlurinn var lokaður og ráshópur hans hafði ekki hafið leik.