Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 24. 2016 | 07:00

Ágúst Jensson til St. Leon Rot í Þýskalandi – GA auglýsir e. framkvæmdastjóra

Ágúst Jensson hefir starfað sem framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar undanfarin 4 ár en er nú á förum til St. Leon Rot golfklúbbsins í Þýskalandi, þar sem hann mun starfa sem aðstoðarvallarstjóri.

Ágúst og eiginkona hans Dagbjört

Ágúst og eiginkona hans Dagbjört Víglundsdóttir

Ágúst ritar eftirfarandi um breytingu á högum fjölskyldunnar á facebook síðu sína:

Það verða talsverðar breytingar á högum fjölskyldunnar í byrjun næsta árs. Við ætlum að skella okkur til Þýskalands, nánar til tekið á stað sem heitir St. Leon – Rot. Þar munu vonandi bíða okkar spennandi og og skemmtilegir tímar. 
Ég hef ráðið mig í vinnu sem aðstoðarvallarstjóri á St Leon Rot sem er eitt stærsta og fallegasta golfsvæði Þýskalands og sennilega Evrópu líka 🙂 Þar eru tveir 18 holu golfvellir, 9 holu völlur og 5 holu stuttur völlur. Stórt æfingasvæði, bæði inni og úti ásamt mörgu öðru.
Á St Leon vellinum hafa verið haldin mörg stórmót, síðast í fyrra þegar Solheim Cup fór þar fram, þannig að vonandi verða stórmótin fleiri!
Það á eftir að verða virkilega gaman að vinna á golfvelli í þessum klassa og svo líka smá tilbreyting að vinna á golfvelli sem er opinn allt árið 🙂
Hér er linkur inn á fallegar myndir af svæðinu 🙂
Svo fáum við bara vonandi sem flesta í heimsókn enda bara klukkutími til St Leon Rot frá Frankfurt.“

Það að Ágúst hverfur frá störfum hefir leitt til þess að GA hefir auglýst laust starf framkvæmdastjóra við klúbbinn og má sjá auglýsinguna hér að neðan:

Laus er til umsóknar staða framkvæmdastjóra Golfklúbbs Akureyrar (GA). Framkvæmdastjóri heyrir undir stjórn GA og hefur yfirumsjón með daglegum rekstri hans.

Starfsemi GA hefur vaxið mikið undanfarin ár. Í aðsetri klúbbsins að Jaðri er starfræktur 18 holu golfvöllur, 6 holu æfingavöllur, nýtt og glæsilegt æfingasvæði, sérverslun með golfvörur, veitingasala og leiga á golfbílum og -settum. Utan sumartíma fer starfsemi klúbbsins einnig fram í fyrsta flokks æfingaaðstöðu í Golfhöllinni sem er í Íþróttahöllinni við Sundlaug Akureyrar miðsvæðis í bænum.

Nánari upplýsingar um GA má finna á www.gagolf.is og www.arcticopen.is.

Starfssvið:
Yfirumsjón með og ábyrgð á daglegum rekstri, þar með talið starfsmannahald, fjármál og samskipti við opinbera aðila
Ábyrgð á þjónustu við klúbbmeðlimi sem og almenna kylfinga
Gerð fjárhags- og starfsáætlana
Samræming verkefna og eftirfylgni þeirra
Upplýsingagjöf og samstarf við stjórn og nefndir klúbbsins

Menntunar- og hæfniskröfur:
Háskólamenntun og / eða menntun sem nýtist í starfi
Þekking og reynsla af íþróttastarfi
Frumkvæði og metnaður til að ná árangri í starfi
Færni í mannlegum samskiptum, samskiptahæfni og samstarfsvilji
Jákvæðni og þjónustulund
Góð íslensku- og enskukunnátta, í töluðu og rituðu máli
Haldgóð tölvukunnátta
Reynsla af stjórnun
Umsókn skal fylgja greinargóð ferilskrá umsækjanda og kynningarbréf þar sem ástæða umsóknar er tilgreind.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Jón Steindór Árnason, varaformaður GA, í síma 864-8924 og í netfanginu jsarnason@gmail.com.

Umsóknarfrestur er til 9. desember 2016. Æskilegt er að umsækjendur geti hafið störf eigi síðar en 1. febrúar 2017. Farið verður með allar umsóknir sem trúnaðarmál. Umsóknum má skila rafrænt á netfangið umsokn@gagolf.is.