Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 24. 2018 | 11:30

Afsökunarbeiðni golfklúbbs f. að hringja á lögreglu vegna hægspilandi blökkukvenna

Golfklúbbur í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum hefir orðið að biðjast afsökunar eftir að hringt var á lögreglu til að fjarlægja holl af blökkukonum af golfvelli vegna meints hægagangs þeirra á golfvellinum.

Þeir sem kvörtuðu voru meðeigandi klúbbsins og faðir hans sem voru í holli á eftir blökkukonunum.

Mér fannst eins og okkur hefði verið mismunað“ sagði ein af konunum, Myneca Ojo, í viðtali við York Daily Record. „Þetta var hræðileg reynsla.“

Sandra Thompson og 4 vinkonur hennar hittust s.l. laugardag til þess að spila golfhring í  Grandview golfklúbbnum, þar sem þær eru allar félagar, sagði í frétt blaðsins.

Á 2. holu, kom hvítur karlmaður, hvers sonur er meðeigandi klúbbsins til þeirra og kvartaði tvívegis yfir að þær væru að spila allt of hægt. Thompson, sem er lögmaður og yfirmaður York deildar NAACP  (The National Association for the Advancement of Colored People) þ.e. réttindahreyfingar blökkumanna, sagði í viðtali við blaðið að þetta væri ósatt.

Á sömu holu, sagði enn önnur kvennanna í hollinu, Sandra Harrison, hafa spjallað við golfkennara Grandview, sem hefði tjáð þeim að það væri allt í lagi með þær þar sem þær héldu í við hollið á undan þeim, (þannig að einfaldlega virðist ekki hafa verið hægt að spila hraðar).

En þrátt fyrir þetta slepptu konurnar 3. holunni til þess að forðast leiðindi.

Það er hluti af siðareglum golfsins að hægspilandi kylfingar hleypi þeim sem eru fyrir aftan fram úr ef verið er að tefja og oftsinnis erlendis er sérstakur starfsmaður á mjög annasömum völlum, sem fylgist með leikhraða og lætur kylfinga vita ef þeir eru of hægir.

Blökkukonurnar 5 eru hluti af stærri hóp kvenna, sem kalla sig „Sisters in the Fairway.“ Þessi hópur hefir komið saman og spilað golf sl. 10 ár og félagarnir eru allir reynsluboltar sem hafa spilað golf um allt Pennsylvaníuríki og um allan heim sagði Thompson. Þeim væri vel kunnugt um siðareglur golfsins.

Eftir 9. holuna, þar sem það er venja að taka sér hlé áður en lokið er við að spila næstu 9 holurnar, þá ákváðu 3 kvennanna að hætta því þær voru í ofmikilli hugaræsingu eftir meðferðina áður, sögðu konurnar í viðtali við blaðið.

Thompson sagði að maðurinn af 2. holu, sem er fyrrum sýslumaður York (ens. York County Commissioner) Steve Chronister og sonur hans, meðeigandi klúbbsins, Jordan Chronister og nokkrir aðrir hvítir karlstarfsmenn klúbbsins hafi undið sér upp að þeim 2 konum sem eftir voru í hollinu og hafi sagt að þær hafi tekið sér of langt hlé og yrðu að yfirgefa völlinn.

Konurnar sögðu að þær hefðu tekið viðeigandi hlé og að karlarnir á undan þeim væru enn að sötra bjór og ekki tilbúnir að fara á teig, eins og sást á myndskeiði sem Thompson lét dagblaðið fá. Konunum var sagt að haft hefði verið samband við lögreglu þannig að þær biðu.

Lögreglan (Northern York County Regional Police) kom, tók skýrslur og fór án þess að handtaka nokkurn.

Við vorum kallaðir þarna til og þegar til kom var ekki um neitt refsivert að ræða,“ sagði yfirmaður Northern York County Regional lögreglunnar Mark Bentzel „Allir fóru – þannig að við fórum líka.“

Allar símalínur voru rauðglóandi út af Steve Chronister á mánudeginum og hann sagði við York Daily Record að hann hefði ekki haft tíma til að tjá sig um atvikið á sunnudeginum.

Tengdadóttir hans, eiginkona Jordan Chronister, sem einnig er meðeigandi klúbbsins JJ Chronister, sagði á sunnudeginum að hún hefði hringt í konurnar og beðið þær persónulega afsökunar.

Við biðjum konurnar einlæglega afsökunar fyrir að hafa látið þeim líða illa hérna á Grandview, það var ekki ætlun okkar á neinn hátt,“ sagði JJ við dagblaðið. „Við viljum að öllum meðlimum okkar finnist þeir metnir að verðleikum og að þeir geti komið hingað og skemmt sér við golfleik og notið reynslunnar.“

JJ sagðist vona að hún gæti hitt konurnar til þess að ræða hvernig klúbburinn gæti nýtt það sem gerðist og lært af því og gert betur í framtíðinni.

Thompson (ein blökkukonan – lögðmaðurinn) sagði að hún væri ekki viss um að fund þyrfti til.

Það þarf að vera eitthvað meira efnislegt til þess að fá þau til að skilja að ekki er hægt að koma fram við fólk á þennan hátt,“ saðgi hún.

Athugasemd Golf1.is: Svona framkoma meðeiganda Grandview og föður hans er ólíðandi og alveg ótrúlega mannskemmandi, en því miður ekkert einsdæmi.  Á hátíðarstundum er rætt um að fjölga verði konum í golfi – þetta er ein ástæðan fyrir að konur sækja ekki í golf! Það þarf að láta vita af svona atvikum og gera eitthvað í málunum!  Konum á að finnast þær vera velkomnar á golfvöllum!!! Thompson virðist í lokin vera að ýja að því jafnvel að fara í mál, ekki bara út af dónaskapnum og  kynja-mismununinni heldur einnig undirliggjandi kynþáttamismununinni. Réttast væri fyrir golfklúbbinn að semja og greiða utan réttar.  Hvað úr verður – verður spennandi að fylgjast með – a.m.k. er atvikið búið að vekja heimsathygli og er mest lesna fréttin á einni helstu golffréttaveitunum. Spurning hvort nokkurn óraði fyrir þegar haldið var á völlinn til að taka golfhring á Grandview í Pennsylvaníu, Bandaríkjunum einn fagran laugardagsvordag í apríl – að skrifað yrði um hringinn á Íslandi???