Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 25. 2011 | 12:00

Afmæliskylfingur dagsins: Art Wall – 25. nóvember 2011

Arthur Jonathan Wall, Jr., alltaf kallaður Art Wall fæddist 25. nóvember 1923 í Honesdale, Pennsylvaníu. Hann stundaði nám við Duke University og útskrifaðist 1949 sem viðskiptafræðingur. Á atvinnumannsferli sínum vann hann 24 sinnum, þar af 14 sinnum á PGA. Af 14 titlum sínum á PGA vann hann 4 árið 1959, en það ár var hann valinn leikmaður ársins á PGA og hlaut Vardon Trophy fyrir lægsta meðaltalsskor. Eins var hann efstur á peningalistanum það ár með verðlaunafé upp á   $53,167.50 sem er eitthvað í kringum  $360.000,- uppreiknað á gengi dagsins í dag.

Art Wall

Hápunktur ferils Arts á PGA var þegar hann sigraði 1959 á Masters. Á lokahringnum fékk hann 5 fugla á síðustu 6 holunum og kom í hús á 66 höggum og sigraði þar með Cary Middlecoff og þann sem átti titil að verja, Arnold Palmer.

Art Wall var í Ryderbikarsliði Bandaríkjanna árin : 1957, 1959, og 1961.

Art Wall er líka þekktur fyrir að hafa 45 sinnum farið holu í höggi (þ.m.t. á æfingahringjum), sem var heimsmet í mörg ár.

Art Wall dó í Scranton, Pennsylvaníu eftir langvarandi veikindi  31. október 2001. 

Aðrir frægir kylfingar sem eiga afmæli í dag eru m.a.: Amelia Rorer, 25. nóvember 1952; Nolan Jay Henke, 25. nóvember 1964; Jóhann Adolf Oddgeirsson, 25. nóvember 1973.

Ef þið viljið koma að afmælisgrein eða láta afmæliskylfings getið í upptalningu kylfinga, sem eiga afmæli hafið samband við golf1@golf1.is