Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 22. 2016 | 18:00

Afmæliskylfingur dagsins: Vijay Singh ———- 22. febrúar 2016

Afmæliskylfingur dagsins er Vijay Singh. Hann er aldeilis búinn að standa sig vel á Northern Trust Open, sem er mót vikunnar á PGA Tour.

Vijay var mikið í fréttum fyrir tæpum 3 árum (2013) vegna notkunar á hjartarhornsspreyi, sem inniheldur ólögleg efni, sem eru á bannlista PGA.

Vijay Singh fæddist 22. febrúar 1963 á Lautoka á Fídji og á því 53 ára afmæli í dag!!!! Hann ólst upp í Nadi. Í dag býr hann á Ponte Vedra Beach í Flórída.

Um barnæsku sína sagði Vijay eitt sinn við blaðamenn: “Þegar ég var krakki höfðum við ekki efni á golfboltum og við urðum að spila með kókoshnetum. Faðir minn sagði: “Vijay litli, golfkúlur detta ekki úr trjánum, þannig að við fundum okkur “kúlur” sem duttu úr trjánum!”

Þegar Vijay var unglingur spilaði hann snóker, cricket og fótbolta og vinsælustu íþrótt á Fídjí-eyjum, rugby. Vijay er sonur Mohan Singh, flugvélavirkja, sem einnig kenndi golf. Á uppvaxtarárum sínum dáðist Vijay að sveiflu Tom Weiskopf og reyndi að stæla hana.

Í dag er Vijay 1.88 m á hæð og 94 kg og ber viðurnefnið “Stóri Fídji-inn” (The Big Fijian). Hann gerðist atvinnumaður í golfi 1984 og er eini atvinnumaður Fídji-eyja í golfi, sem hefir verið nr. 1 á heimslistanum. Árin 2004 og 2005 var hann 32 vikur samfellt nr. 1 á heimslistanum.

Hann hefir sigrað á 3 risamótum (Masters 2000 og PGA meistaramótinu 1998 og 2004) og var á toppi peningalistans á PGA-mótaröðinni 2003, 2004 og 2008.

Vijay hefir sigrað 22 sinnum á PGA-mótaröðinni eftir að hann varð 40 ára – og sló þar með met sem Sam Snead átti. Vijay er 2. maðurinn til þess að hafa unnið sér inn $60 milljónir (tæplega 8 billjónir ísl. kr.) á eftir Tiger Woods.

Vijay hefir alls unnið 34 sigra á ferli sínum og flesta sigra kylfings á PGA-mótaröðinni, sem ekki er Bandaríkjamaður. Hann er í 14. sæti á heimslistanum yfir bestu kylfinga allra tíma. Hann hefir alls verið 500 vikur meðal topp 10 á listanum yfir bestu kylfinga heims.

Vijay fékk inngöngu í frægðarhöll kylfinga árið 2006. Hann hefir jafnframt unnið FedEx bikarinn 2008. Vijay er frægur fyrir óaðfinnanlegan undirbúning fyrir mót. Hann dvelur oft klukkustundum saman á æfingasvæðunum fyrir mót til þess að vinna í spili sínu.

Vijay Singh er kvæntur Adrenu Seth, sem er frá Malasíu. Þau eiga einn son, Qass Seth, sem er býsna frambærilegur kylfingur líka, en hann og Vijay hafa m.a. unnið feðra-sona mót á vegum PGA Tour.

Loks mætti geta tveggja annarra tilvika þegar Vijay var umræðuefni golffrétta og ekki að góðu. Vijay var umdeildur árið 2003 fyrir Bank of America Colonial-mótið. Annika Sörenstam átti að spila á PGA mótinu og haft var eftir Vijay: “Ég vona að hún komist ekki í gegnum niðurskurð… vegna þess að hún á ekki heima á þessari mótaröð.” Síðar sagði hann að efnislega hefði það sem hann sagði við Associated Press blaðamann verið að hún myndi koma í stað karlkyns kylfings, sem væri að berjast um að komast á mótaröðina og hann vorkenndi þeim kylfingi fyrir að komast ekki vegna Anniku. En það kom fyrir ekki… fjölmiðlar veltu sér upp úr yfirlýsingu hans. Golf Digest skrifaði að Vijay Singh væri orðinn “vondi strákurinn í heimi atvinnumanna í golfi”. Blaðamaður AP viðurkenndi síðar að hann hefði slitið úr samhengi það sem Vijay sagði til þess að krydda frétt sína.

Annað tilvik neikvæðrar blaðaumfjöllunar um Vijay var eftir að hann vann Masters- mótið. Ernie Els félagi Vijay var alls ósattur við gagnrýnina sem vinur hans hlaut. Els skrifaði grein í Sports Illustrated til þess að verja Vijay. Þar skrifaði hann m.a.: “Golfheimurinn ætti að vera stoltur af Vijay Singh.” Síðar sagði Els um Singh: “Hann er yndislegur strákur. Ég hef þekkt hann meira og minna í 10 ár nú. Hann er mikill keppnismaður. Ég held að fólk misskilji Vijay. Hann er virkilega góður strákur.

Heimild: Wikipedia

Ofangreind afmælisgrein greinarhöfundar hefir áður birtst 22. febrúar 2010, á iGolf, en birtist hér örlítið breytt.

Aðrir frægir kylfingar sem eiga afmæli í dag eru: Joe Carr (Íri) f. 22. febrúar 1922 – d. 3. júní 2004; Tommy Aaron, 22. febrúar 1937 (79 ára); Skátafélagið Faxi (78 ára); Amy Alcott 22. febrúar 1956 (60 ára); Stefán Gunnar Svavarsson (48 ára); Ingibjörg Elíasdóttir (48 ára);  Leslie Spalding 22. febrúar 1969 (47 ára); Sólrún Linda Þórðardóttir (44 ára); Unndór Egill Jónsson (38 ára); Minningarsíða Hemma (36 ára) ….. og ……

Golf 1 óskar öllum kylfingum sem afmæli eiga í dag innilega til hamingju með afmælið!

Ef þið viljið koma að afmælisgrein eða láta afmæliskylfings getið í upptalningu kylfinga, sem eiga afmæli hafið samband við golf1@golf1.is