Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 7. 2021 | 16:00

Afmæliskylfingur dagsins: Tony Jacklin –—— 7. júlí 2021

Afmæliskylfingur dagsins er Tony Jacklin. Jacklin er fæddur 7. júlí 1944 og á því 75 ára merkisafmæli í dag.

Margir af yngri kylfingum dagsins í dag hafa aldrei heyrt hans getið. Hver er Tony Jacklin?

Hann var sonur vörubílstjóra frá Scunthorpe í Englandi og varð síðar stjarna breska golfheimsins og aðalmaðurinn í góðum árangri Evrópu í Ryder Cup.

Hátindum velgengni fylgdu miklir öldudalir lægða í stuttum en brillíant ferli Tony Jacklin.

Tony Jacklin fæddist 7. júlí 1944 inn í verkamannafjölskyldu í Scunthorpe og ólíklegt virtist að hann ætti eftir að gera golfið að ævistarfi sínu. Þrátt fyrir mikinn stuðning frá föður sínum, sem var mikill golfaðdáandi þá fannst foreldrum hans of áhættusamt að hann legði golfið fyrir sig sem aðalatvinnu.

Þannig að 15 ára gamall byrjaði hann sem lærlingur í stálnámu og síðan var hann hlaupadrengur á lögfræðistofu.

En golftaugin var sterk í Tony og árið 1962, þegar Tony var 18 ára gamall stökk hann á tækifærið þegar Bill Shankland réði hann sem aðstoðarmann golfkennara á Potters Bar golfvellinum. Þar vann hann þrotlaust að því að fullkomna sveiflu sína og fór að njóta velgengni. Árið 1967 vann hann 4 mikilvæg mót þ.á.m. breska Masters.

Jacklin var mikill bjartsýnismaður og hafði persónuleika hins sjálfsörugga sigurvegara. Ekkert var ómögulegt. Þegar hann kynntist Vivien Murray á bar á hóteli í Belfast sagði hann vinum sínum sama kvöld að hann myndi kvænast henni – það truflaði hann ekkert að hún ætti kærasta, fyrir hann var ljóst að hann myndi bíða hennar að eilífu. Ellefu mánuðum síðar voru þau gift.

Árið 1968 ferðaðist Tony til Bandaríkjanna til þess að spila á PGA-mótaröðinni. Hann fékk kuldalegar móttökur frá sumum heimóttalegu, einstrengingslegu bandarísku leikmönnunum. David Hill sagði t.a.m. eitt sinn upphátt: “Banna ætti útlenskum kylfingum að keppa í Bandaríkjunum,” meðan Tony stóð aðeins nokkra metra frá honum. Þrátt fyrir þessa þröngsýnu fáu leikmenn, þá gekk Tony vel og hann sigraði á Jacksonville Open, árið 1968. Hann sneri aftur til Bretlands sannfærður um að hann gæti sigrað þá bestu í heiminum.

Sumarið 1969 sannaði Tony Jacklin það á Opna breska í Royal Lytham & St. Annes. Þegar hann stóð á 18. teig með nauma forystu sló Jacklin drive-ið sitt nákvæmlega á réttan stað innan um sandglompu stráða brautina, sem varð til þess að sá sem lýsti mótinu, Henry Longhurst lét frá sér fara þessi ódauðlegu orð: “Oh, what a corker!” (ísl. lausleg þýðing – merkingin er tvíbent: Ó, þvílíkt afbragð/beljakahögg!”)

Að sjá þennan stæl Breta með sína miklu persónutöfra lyfta Claret Jug – en hann var fyrsti Bretinn til þess að sigra á heimavelli síðan Max Faulkner vann bikarinn 1951 – hleypti af stað miklum golfáhuga og ungmenni um allt Bretland heilluðust af golfleiknum. Jacklin var á öldutoppnum og náði nýjum hæðum næsta ár þegar hann sigraði 1970 á Opna bandaríska í Hazeltine með 7 högga mun – fyrsti breski sigurvegarinn á Opna bandaríska frá því að Ted Ray sigraði þar 1920.

Hann gæti hafa sigrað á Opna aftur 1972. Hann var jafn Lee Trevino á 71 holu. Jacklin stóð frammi fyrir að pútta fyrir fugli á par-5 brautinni meðan bandaríkjamaðurinn (Lee Trevino) hafði ekki einu sinni náð inn á flöt í 4 höggi sínu. Trevino sagðist hafa gefið upp alla von þegar hann chippaði inn á flöt og viti menn beint ofan í holu fyrir pari. Jacklin hins vegar þrípúttaði og fékk bogey. Trevino sigraði og Tony Jacklin tók aldrei aftur þátt í risamóti.

Eftir því sem leið á árið 1972 hrakaði púttum Jacklin, hann reyndi allt hvað hann gat til þess að komast yfir pútt-tremann en án árangurs. Hann reyndi jafnvel að pútta með augun lokuð. Þegar hann spilaði á Bob Hope Classic 1976 var hann orðinn svo stressaður bara að halda á pútter að hann fór aftur á hótelherbergi sitt og datt út af.

Hann varð fyrir gífurlegum vonbrigðum með sjálfan sig, en áhugi hans var endurlífgaður þegar hann var útnefndur stjórnandi liðs Evrópu um Ryder bikarinn árið 1983.

Bandaríkin höfðu ráðið lofum og lögum frá því að Jack Nicklaus tapaði svo sem frægt er fyrir Jacklin á 18. braut Birkdale vallarins árið 1969, sem varð til þess að úrslitin (holukeppni) voru jöfn. Nú sneri Jacklin dæminu við fyrir Evrópu. Árið 1983 tapaði lið hans naumlega á PGA National. Hins vegar árið 1985 leiddi hann lið Evrópu til sigurs á Belfry-vellinum – en þetta var fyrsti sigur evrópska liðsins síðan 1957. Jacklin var líka stjóri liðs Evrópu þegar það sigraði bandaríska liðið á heimavelli í fyrsta sinn í sögu Ryder bikarsins í Muirfield Village.

Harmur Tony Jacklin var mikill 7 mánuðum síðar þegar Vivien, konan sem hann elskaði alla ævi, dó úr heilablæðingu.

Tony var þó enn í eitt skipti stjóri Evrópuliðsins í Ryder bikarnum, árið 1989 en þá skyldu Bandaríkin og Evrópa jöfn.

Alls sigraði Tony Jacklin 28 sinnum á atvinnumannsferli sínum á árunum 1965 og 1995. Hann fékk einnig inngöngu í frægðarhöll kylfinga árið 2002.

Sem stjórnandi liðs Evrópu í Ryder Cup reisti Tony Jacklin spilamennsku evrópsku kylfinganna á nýjan stall og veitti heilu kynslóðunum af evrópskum kylfingum innblástur til þess að gera það allra besta.

Frá sigrinum fræga árið 1985 hefir Evrópa unnið 6 af 11 keppnum um Ryder bikarinn – (það verður gaman að sjá hvað gerist í næsta slag um Ryder bikarinn undir stjórn Monty nú í ár!)

Heimild: Golf Monthly

Ofangreind grein greinarhöfundar hefir áður birtst 2010 á iGolf.

Aðrir frægir kylfingar sem eiga afmæli í dag eru: Sandy Tatum, f. 7. júlí 1920 (99 ára);  Auður Dúadóttir, 7. júlí 1952 (66 ára); Sigurborg Eyjólfsdóttir, GK; 7. júlí 1963 (56 ára); Guðmundur Bjarni Harðarson, 7. júlí 1965 (54 ára); Agnes Charlotte Krüger, 7. júlí 1964 (55 ára) og Gabriela Cesaro

Golf 1 óskar afmæliskylfingnum og öðrum kylfingum sem afmæli eiga í dag innilega til hamingju með afmælið!

Ef þið viljið koma að afmælisgrein eða láta afmæliskylfings getið í upptalningu kylfinga, sem eiga afmæli hafið samband við golf1@golf1.is