Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 30. 2013 | 16:30

Afmæliskylfingur dagsins: Tiger Woods —— 30. desember 2013

Afmæliskylfingur dagsins í dag er Eldrick Tont „Tiger“ Woods. Tiger  fæddist 30. desember 1975, í Cypress, í Kaliforníu og er því 37 ára í dag.

Hann hefir spilað golf frá 2 ára aldri og þótti undrabarn, sjá má myndskeið með honum bráðungum, þar sem hann kom fram í sjónvarpsþættinum „The Michael Douglas Show“ ásamt Bob Hope, með því að SMELLA HÉR:

Tiger 2 ára í The Mike Douglass Show

Tiger 2 ára í The Mike Douglass Show

Tiger ólst upp í Kaliforníu þar sem hann sigraði næstum öll mót í sínum aldursflokki og oft krakka sem voru mun eldri en hann.

Tiger var aðeins 3 ára þegar hann spilaði 9 holur undir 50 höggum.  Fyrsta skiptið sem það gerðist var hann á 48 höggum og spilaði af rauðum teig á Destroyer golfvellinum.  Hann var aðeins með 3 kylfur í pokanum.

Þarna var svo komið að koma varð þessu undrabarni í hendur golfkennara.  Fyrsti golfkennari Tigers var Rudy Duran, sem kenndi Tiger á aldursbilinu 4-10 ára.

Undir handleiðslu Rudy Duran náði Tiger góðum árangri.

Þannig var Tiger aðeins 8 ára þegar hann „breakaði“ 80 í fyrsta sinn og sama ár vann hann keppnina „The Junior World Ten- and under golf tournament“ þ.e. „heimsmeistaramót barna í golfi undir 10 ára aldri“, gegn mörgum sér eldri krökkum.

Sama ár, 1984, átta ára gamall vann Tiger 9-10 mótið á Junior World Golf Championships (barna-og unglingameistaramótaröðina í golfi) í yngsta aldursflokk, sem hægt var að skrá hann í.  Hann vann þessa mótaröð alls 6 sinnum, þ.á.m. 4 ár í röð frá 1988-1991 (þ.e. 12-15 ára).

Tiger var 12 ára þegar hann „breakaði“ 70 í fyrsta sinn.

Loks mætti geta að 13 ára gamall spilaði Tiger hring með John Daly á „Insurance Youth Golf Classic mótinu“ í Texarcana Country Golf Club í Arnkansas.  Eftir 9 holur var Tiger 3 undir pari og átti 2 högg á Daly, sem er 9 árum eldri en Tiger. Daly, hræddur um að tapa fyrir 13 ára strák, herti sig upp, setti niður 4 fugla og vann leikinn.  Tiger varð í 2. sæti á mótinu, þar sem þátt tóku 20 atvinnumenn og 60 ungir kylfingar.

Tiger útskrifaðist frá Western High School árið 1994, þá 18 ára og var kosinn „líklegastur til að ná árangri“ meðal bekkjarsystkina sinna. Öll menntaskólaár sín lék hann með golfliði skólans undir stjórn þjálfara síns Don Crosby. Eftir menntaskólann lá leiðin í Stanford University, þar sem Tiger spilaði golf öll háskólaár sín og lagði stund á hagfræði.

Með fréttatilkynningunni “Hello World,“ gerðist Tiger Woods atvinnukylfingur í ágúst 1996 og undirritaði við það tilefni stóra samninga upp á $40 milljónir við Nike Inc. og upp á $20 milljónir við Titleist.

Tiger vann sig fljótt upp í að verða  kylfingur nr. 1 í heiminum. Hann varð að stíga af stalli fyrir Lee Westwood og var  “bara“ nr. 2 í heiminum og fór m.a. niður í 58. sæti á heimslistanum árið 2011, en er nú í 1. sæti á heimslistanum í árslok 2013.

Tiger hefir m.a. 11 sinnum verið valinn kylfingur ársins á PGA mótaröðinni, nú síðast í ár 2013.

Hann er eftir sem áður hæst launaði íþróttamaður heims, með 78 milljónir bandaríkjadala í tekjur árið 2013.

Tiger hefir sigrað á 14 risamótum, sem er næstbesti árangur karlkylfings í golfsögunni, aðeins Jack Nicklaus stendur honum enn sem komið er framar, með 18 sigra.

Jafnframt hefir Tiger sigrað í 79 skipti á mótum á PGA mótaröðinni, en hann er sá kylfingur sem sigrað hefir næstoftast á mótaröðinni, á eftir Sam Snead sem sigraði 82 sinnum og vantar Tiger því aðeins 3 sigra til að jafna met Snead og 4 sigra til að slá við meti Snead.

Fyrir rúmlega 4 árum síðan, 11. desember 2009 tilkynnti Tiger að hann ætlaði sér að taka leyfi frá golfi og einbeita sér að því að bjarga hjónabandi sínu og hinnar sænsku Elínar Nordegren.

Tiger sneri sér þó aftur að því að spila á mótum 8. apríl 2010, þegar hann tók þátt í Mastersmótinu eftir 20 vikna hlé frá golfi; en hjúskap hans og Elínar lauk með skilnaði 24. ágúst 2010.

Árin 2008-2011 voru  erfiðleikaár á ferli Tigers, ekki einungis á sviði einkalífsins, heldur hrjáðu ýmis meiðsl kappann, hann gekkst t.d. undir uppskurð á hné 2008 og í kjölfarið rifnaði hásin, nokkuð sem tók Tiger tíma að jafna sig á en meiðslin gera öðru hvoru vart við sig. Eins sagði hann sig t.d. úr Players-mótinu, 9. maí 2010, vegna einskonar hálsrígs eða stífleika í hálsvöðvum, sem olli að sögn Tigers dofa í fingrum, sem aftur kom niður á sveiflu hans.

Tiger er búddistatrúar og hefir alla tíð sótt styrk í trúna á erfiðleikatímum.

S.l. 2 ár hefir aftur á móti allt verið á uppleið hjá Tiger golflega séð. Hann varð m.a. T-2 í Honda Classic með lægsta skor á lokahring á ferli sínum, árið 2012.  Sama ár sigraði Tiger  í Arnold Palmer Invitational, sem var fyrsti sigur hans á PGA Tour frá því að hann vann BMW Championship í september 2009. Tiger vann 73. titil sinn á PGA Tour þegar hann vann Memorial Tournament í júní 2012. Aðeins mánuði seinna sigraði Tiger á AT&T National. Sem sagt 3 sigrar á árinu 2012!

Og það batnaði aðeins í ár, 2013. Hann sigraði í 5 mótum: Farmers Insurance Open; WGC-Cadillac Championship; Arnold Palmer Invitational; THE PLAYERS og WGC-Bridgestone Invitational. Hann vann sér inn 8. 5 milljónir bandaríkjadala í hreint verðlaunafé árið 2013.

Líka í einkalífinu fór allt upp á við hjá Tiger, en í mars 2013 tilkynnti hann um samband sitt við Ólympíuskíðadrottninguna Lindsey Vonn.

Lindsey Vonn og Tiger Woods

Lindsey Vonn og Tiger Woods

Tiger á tvö börn með Elínu: Sam Alexis (f. 2007) og  Charlie Axel (f. 2009). Faðir hans var Earl Woods (1932-2006) og móðir hans er Kultida (Tida) Woods (f. 1944). Hann er eina barn úr hjónabandi þeirra en á  tvo hálf-bræður, Earl Jr. (f. 1955) og Kevin (f. 1957), og eina hálf-systur, Royce (f. 1958), en þau eru börn úr 18 ára hjónabandi Earl Woods og fyrri konu hans, Barbara Woods Gray. Dóttir hálfbróður Tiger Earl er Cheyenne Woods, sem spilar á LET.

Hér má loks sjá enn eina 37 ára afmælisgrein um þennan fyrrum nr. 1 á heimslistanum, Tiger Woods, SMELLIÐ HÉR:

Aðrir frægir kylfingar sem eiga afmæli í dag eru m.a.:  Kris Tschetter, 30. desember 1964 (49 ára); LeBron James, 30. desember 1984 (29 ára)  ….. og …..

  • Golf 1 óskar afmæliskylfingnum og öðrum kylfingum sem afmæli eiga í dag innilega til hamingju með afmælið!

    Ef þið viljið koma að afmælisgrein eða láta afmæliskylfings getið í upptalningu kylfinga, sem eiga afmæli hafið samband við golf1@golf1.is

    Framangreint er samsteypa af 2 greinum greinarhöfundar, sem hafa birst áður á iGolf.is þann 25. janúar 2010 og 30. desember 2010 – en birtast hér uppfærðar og aðeins breyttar. 

    Heimild: Wikipedia (að hluta)