Ragnheiður Jónsdóttir | september. 28. 2011 | 14:00

Afmæliskylfingur dagsins: Sigurjón Harðarson – 28. september 2011

Það er Sigurjón Harðarson, formaður Golfklúbbs Ásatúns sem er afmæliskylfingur dagsins í dag. Sigurjón fæddist í Reykjavík 28. september 1952 og er því 59 ára. Sigurjón ólst upp í Laugarneshverfinu og var mikið í sveit á sumrin, sem barn og unglingur.

Sigurjón byrjaði í golfi þegar hann fékk lóð undir sumarbústað í landi Ásatúns.  Í framhaldinu byggði hann 9 holu golfvöll og stofnaði Golfklúbb Ásatúns árið 2005.  Afmæliskylfingur dagsins er með 22 í forgjöf, en hann spilar aðallega golf á veturna, þar sem háannatími er í fyrirtæki hans á sumrin.

Golfklúbbur Ásatúns er að verða með stærstu klúbbum á Suðurlandi vegna fjaraðildar, þ.e. mikillar aðsóknar kylfinga, sem spila ekki nema nokkra hringi á ári og finnst of dýrt að vera í stóru klúbbunum í Reykjavík. Sigurjón sagði í viðtali við Golf 1 (sem verður birt hér á vefnum síðar á árinu) að félagar í klúbbnum væru 264, þ.e. síðast þegar hann gáði í tölvuna; „Kiðjabergið er enn stærsti klúbburinn en við stefnum ótrauð á að slá því við.”

Golfvöllur Ásatúns er með skemmtilegri 9 holu völlum landsins og ættu kylfingar  endilega að gera sér ferð austur og prófa hann!

Afmæliskylfingur dagsins, Sigurjón Harðarson, er eigandi bifvélaverkstæðisins Topps í Kópavogi og hefir starfað í fyrirtæki sínu frá árinu 1970. Aðalgolfmót Ásatúns ár hvert er kennt við fyrirtæki Sigurjóns, Toppmótið og verðlaun í því með þeim veglegri.

Sigurjón er kvæntur Valgerði Jönu Jensdóttur og eiga þau 2 syni.

Golf 1 óskar Sigurjóni innilega til hamingju með afmælið!

Aðrir frægir kylfingar sem eiga afmæli í dag eru m.a.:  Margaret „Wiffi“ Smith, fædd 28. september 1936 (75 ára); Giuseppe Calì, f. 28. september 1952 (59 ára); Gustavo Rojas, f. 28. september 1967 (44 ára);  Se Ri Pak, f. 28. september 1977 (34 ára) og Kenneth Ferrie, (breski kylfingurinn sem vann Austrian Golf Open s.l. helgi á Evrópumótaröðinni); f. 28. september 1978 (33 ára).