Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 3. 2012 | 13:00

Afmæliskylfingur dagsins: Retief Goosen – 3. febrúar 2012

Afmæliskylfingur dagsins er uppáhaldskylfingur margra Retief Goosen, frá Suður-Afríku. Retief fæddist 3. febrúar 1969 í Pietersburg (nú Polokwane)  í Suður-Afríku og er því 43 ára í dag.

Hann var á topp 10 á heimslistanum í alls 250 vikur á árunum 2001-2007.

Helstu afrek hans eru tveir sigrar á Opna bandaríska (2001 og 2004) og eins var hann á toppi peningalista Evrópumótaraðarinnar 2001 og 2002.

Pabbi Retief, Theo Goosen, kenndi honum golf á unga aldri, en annars hlaut Retief fremur strangt uppeldi, þar sem pabbi hans lagði mikla pressu á hann.

Á afmælisdegi þessa uppáhaldskylfings margra er ekki ætlunin að gera grein fyrir öllum afrekum Retief á golfsviðinu, heldur einungis að rifja upp sögu af því þegar hann var 15 ára í golfi með vini sínum, Henri Potgieter,  í Pietersburg Golf Club.

Þeir voru að spila í rigningu þegar elding laust þá.  Henri sagði Golf World söguna: „Ég vildi sjá hvernig hann brygðist við. Það sem ég sá voru golfkylfurnar hans og pokinn. Síðan sá ég hann liggjandi á jörðinni á bakinu. Tungan var ofan í koki og augun voru á hvolfi og öndun hans var skrítin. Hann var ekki í neinum fötum; þau brenndust af líkama hans. Ég tók upp gleraugun hans.

Ég vissi ekki hvað ég átti að gera. Það leit út eins og hann væri dauður. Ég öskraði á hjálp.  Sem betur fer, voru nokkrir strákar að slá af 12. teig. Þeir hlupu í áttina til okkar. Frá því augnabliki get ég ekki munað neitt. Þeir fóru með hann í bíl. Skór Goosen höfðu sprengst af honum. Nærfötin hans og úrbandið höfðu bráðnað í líkama hans.  Hann er enn með ör á úlnliðnum eftir slysið.  Hann gat ekki farið í skó margar vikur á eftir. En hann náði sér og eftir þó nokkrar vikur spilaði hann með öðru setti. Retief man ekkert eftir slysinu, en pabbi hans tók góðan bata sonarins sem tákni frá Guði um að góðir hlutir myndu henda“ …

sem svo sannarlega hafa hent í lífi afmæliskylfings dagsins, Retief Goosen.

Þetta sýnir bara að fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.

Aðrir frægir kylfingar, sem eiga afmæli í dag eru:  Carol Mann, 3. febrúar 1941 (71 árs);  Richard Bland, 3. febrúar 1973 (39 ára);  Tyler Heath Slocum, 3. febrúar 1974 (38 ára).

Ef þið viljið koma að afmælisgrein eða láta afmæliskylfings getið í upptalningu kylfinga, sem eiga afmæli hafið samband við golf1@golf1.is