Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 13. 2012 | 15:00

Afmæliskylfingur dagsins: Mark O´Meara, 13. janúar 2012

Afmæliskylfingur dagsins er Mark Francis O´Meara, en hann fæddist 13. janúar 1957, í Goldsboro, Norður-Karólínu og er því 55 ára.

Helsti frægðartími Mark er um miðjan 9. áratuginn og fram á síðari part 10. áratugarins en hann var næstum 200 vikur á topp-10 á heimslistanum, allt frá upphafi hans árið 1986 og til ársins 2000.

O’Meara ólst upp í Mission Viejo í  Kaliforníu.  Hann byrjaði í golfi 13 ára þegar hann stalst á golfvöllinn í Mission Viejo Country Club. O’Meara varð síðar starfsmaður í klúbbnum og spilaði á menntaskólaárum sínum mikið þar.

Hann var All-American í Long Beach State, og vann U.S. Amateur árið 1979, þ.e. viðureignina við John Cook.

Eftir útskrift úr háskóla með gráðu í markaðsmálum, árið 1980 gerðist O´Meara atvinnumaður í golfi og vann m.a. 16 sinnum á PGA; fyrsta mótið sem hann vann var the Greater Milwaukee Open árið 1984. Hann vann AT&T Pebble Beach National Pro-Am fimm sinnum, en átti 41. árs afmæli í janúar fyrir 13 árum, 1998, án þess að hafa nokkru sinni sigrað á risamóti.

Síðar þetta ár 1998, vann O´Meara tvö risamót fyrst Masters og síðan Opna breska.

O’Meara þakkaði sigrana m.a. mörgum æfingahringjum með nýrri stjörnu sem var að rísa á stjörnuhimninum á þeim tíma, Tiger Woods, en Mark og Tiger eru miklir vinir. Þetta sama ár, 1998, vann O´Meara  Cisco World Match Play Championship og náði besta árangri sínum á heimslistanum, 2. sætinu.

O’Meara er þekktur fyrir að keppa mikið utan Bandaríkjanna, gerir það í mun meira mæli en flestir leiðandi bandarískir golfarar og hefir sigrað mót í Evrópu, Asíu, Ástralíu og Suður-Ameríku.

Eftir aldmótin urðu umskipti á heilsu O´Meara til hins verra og hann átti í allskyns meiðslum, en 2004 vann hann í fyrsta skipti aftur eftir 6 ára eyðimerkurgöngu sigurlega séð, einmitt í eyðimörk; Dubai Desert Classic mótið, sem er hluti af Evróputúrnum.

Frá árinu 2007 hefir O’Meara spilað á Champions Tour; hann lenti oftsinnis meðal topp 10 í mótum m.a. landaði hann nokkrum sinnum 2. sætinu, en sigraði aldrei þar til á síðasta ári 2010, þegar hann náði 1. sætinu ásamt Nick Price, í Liberty Mutual Legends of Golf, auk þess sem hann vann fyrsta öldungarisamótið sitt, „the Constellation Energy Senior Players Championship.“

Afmælisbarnið O’Meara fæst aðeins við golfvallarhönnun og nýtur þess að fara í veiðitúra í frístundum sínum (eins og margir aðrir heldri toppkylfingar t.d. Jack Nicklaus).

Þessi grein greinarhöfundar hefir áður birst 13. janúar 2011 á iGolf en birtist hér uppfærð og að nokkru breytt. 

Heimild: Wikipedia

Aðrir frægir kylfingar sem eiga afmæli í dag eru m.a.:

Rachel Bell, 13. janúar 1982 (30 ára).

 Ef þið viljið koma að afmælisgrein eða láta afmæliskylfings getið í upptalningu kylfinga, sem eiga afmæli hafið samband við golf1@golf1.is