Ragnheiður Jónsdóttir | september. 27. 2011 | 10:50

Afmæliskylfingur dagsins: Kathy Whitworth – 27. september 2011

Afmæliskylfingur dagsins er Kathy Whitworth.  Kathy fæddist 27. september 1939 í Monahans, Texas og er því 72 ára í dag. Kathy er sá kylfingur (hvort heldur er karl/kvenkyns) sem sigrað hefir á flestum golfmótum atvinnumanna með 98 titla, þar af 88 á LPGA (og þar af 6 sigra á risamótum) , 1 á Evrópumótaröð kvenna og 9 á öðrum mótum.

Þessi hávaxna kona frá Texas (1,75 m á hæð) með smitandi hláturinn varð atvinnumaður í golfi árið 1959 og var atvinnukylfingur í 38 ár. Hún vann sér inn $ 1.7 milljónir (um 221 milljón íslenskra króna) á mótaröð, sem var rétt að hefja gang sinn. Árið 1981 varð hún fyrsti kvenkylfingurinn til þess að hljóta meira en $ 1 milljón í tekjur.

Kathy hóf að spila golf 15 ára (árið 1954). Hún var 19 ára gömul (árið 1958) þegar hún spilaði fyrst á mótum Ladies Professional Golf Association (LPGA-mótaröðinni). Næstu 15 árin hlaut hún titilinn “kylfingur ársins á LPGA-mótaröðinni” í 7 skipti á árunum 1966-1973. Árið 1965 og aftur árið 1967 valdi Associated Press hana “Íþróttamann ársins”. Golf Magazine valdi hana “Kylfing áratugarins” vegna framúrskarandi frammistöðu hennar á árunum 1968 og 1977.

Á ferli sínum leiddi Whitworth peningalistann 8 sinnum og var 7 sinnum handhafi Vare Trophy (en bikarinn er veittur þeim kylfingi með lægsta meðalskorið). Af mörgu er að taka af löngum og glæstum ferli, en loks mætti geta þess að afmæliskylfingur dagsins, Kathy Whitworth er í frægðarhöll kylfinga.

Aðrir frægir kylfingar sem eiga afmæli í dag eru m.a. argentínski kylfingurinn  Armando Saavedra, 27. september 1954 (57 ára)