Ragnheiður Jónsdóttir | september. 25. 2022 | 16:00

Afmæliskylfingur dagsins: Jodie Kidd –———– 25. september 2022

Afmæliskylfingur dagsins er Jodie Kidd. Jodie Kidd fæddist 25. september 1978 í Guildford í Englandi og er því 44 ára í dag.

Aðrir frægir kylfingar eru: Michael Douglas, 25. september 1944 (78 ára); Jón Halldórsson, 25. september 1954 (68 ára); Ystiklettur Veiðifélag, 25. september 1955 (67 ára); Heather Locklear, 25. september 1961 (61 árs); Speshandverk Lillaogmagga (56 ára); Catherine Zeta Jones, 25. september 1969 (53 ára); Skúli Már Gunnarsson, 25. september 1971 (51 árs); John Mallinger, 25. september 1979 (43 árs); Belen Mozo, 25. september 1988 (34 ára); Aron Atli Bergmann (24 ára) ; …. og ….

Afmæliskylfingurinn Jodie Kidd er þekkt sjónvarpsstjarna og módel í heimalandi sínu og jafnframt frambærilegur kylfingur, er með 18 í forgjöf.

Sem barn kom hún fram á hestasýningum, sem reiðmaður í hindrunarstökki (ens. showjumping). Meðal annarra áhugamála Jodie fyrir utan golfið og hestamennsku eru póló og kappakstur. Jodie er sérfræðingur í pólóleik og spilar oft með Apes Hill Polo liðinu á Barbados, þar sem hún býr. Hún keyrir um á Maserati.

Jodie er af breskum aðalsættum. Hún er barnabarn úr þriðja hjúskap Hon. Janet Gladys Aitken (1908–1988) og Major Thomas Dealtry Kidd (kvæntust 1942). Móðir Jodie, Wendy Madeleine Kidd (fædd Hodge), er dóttir Sir John Rowland Hodge og er 2. barónessa og er m.a. þekktust fyrir að standa fyrir og vera gestgjafi á Holders Festival á Barbados. (Árlegur viðburður haldinn fyrir hina ofurríku á Sandy Lane 5 stjörnu golfstaðnum, sem er einna þekktastur fyrir að Tiger Woods kvæntist Elínu Nordegren þar árið 2004 – sjá m.a. umfjöllun á iGolf um golfstaðinn frá 30. október s.l. með því að smella HÉR:)

Pabbi Jodie er breski viðskiptamaðurinn og einnig fyrrum hestaknapi í hindrunarstökki, John Edward Aitken Kidd, en hann er jafnframt barnabarn (móðurmegin) fyrsta Beaverbrook lávarðarins, sem stofnaði dagblaðið „The Daily Express.“

Jodie á eldri systur, Jemmu Kidd (f. 1974), sem giftist Arthur Gerald Wellesley, jarli af Mornington, barnabarni Duke of Wellington (sem steikin fræga er kennd við) í júní 2005. Hún á einnig eldri bróður, pólóleikmanninn, Jack Kidd (f. 1973), sem er kvæntur og á fjölmörg börn.

Eftir rómans sem stóð í 1 ár og trúlofun giftist Jodie internet viðskiptamanninum Aidan Butler, 10. september 2005, í St. Peter’s Church, Twineham, West Sussex – en þau skildu aðeins 18 mánuðum síðar.

Hvað skólagöngu Jodie áhrærir þá gekk hún í St Michael’s School í Petworth.

Módelstörf Jodie Kidd
Jodie var aðeins 15 ára þegar ljósmyndarinn Terry O’Neil uppgötvaði hana þar sem hún var í sólbaði á strönd í Barbados. Módelframi hennar hófst þegar hann kynnti hana fyrir Laraine Ashton, sem varð umboðsmaður hennar. Jodie hóf að sitja fyrir 16 ára og olli fljótt uppnámi vegna þess að talið var að ofurgrannur líkami hennar hvetti unglingsstúlkur til lystarstols. Jodie er 1,88 m á hæð og vóg 48 kíló, BMI = 13.58 – en þannig hlaut hún einnig fyrsta viðurnefni sitt „the locust model“ (ísl: engisprettumódelið). Jodie viðurkenndi að hafa ekkert verið nema skinn og bein, en harðneitaði að hafa verið anorexísk, kenndi hitasótt (ens. glandular fever) um magran líkama sinn.

Jodie hefir verið módel hjá þeim stærstu og bestu í bransanum allt frá Capellino til Chanel, Ernesto Esposito til Fendissime, Gai Mattiolo til Ghost, Lagerfeld til Malhas, Monsoon til Motorola og tók einnig þátt í auglýsingaherferð fyrir Chloé ‘Innocence’ ilmvatnið og Yves Saint Laurent. Hún var á forsíðum ástralska Elle Magazine og einnig á útgáfum tímaritsins á Ítalíu, Portúgal, Singapore, Svíþjóð og í Bandaríkjunum, sem og m.a. breska Vogue, The Face og Comme de Garçons.

Jodie Kidd er einstakt dæmi um fjölhæfan, nútíma aristókrata, sem er þekktur fulltrúi hátísku og eðalíþrótta s.s. golfsins. Þess mætti geta að Jodie tók sér 8 mánaða frí frá módelstörfum til þess að fita sig og notar nú fatastærð 36.

Önnur störf Jodie
Hér er aðeins ráðrúm til að tæpa á nokkrum aukastörfum Jodie, sem flest tengjast hlutverkum í leikritum, kvikmyndum og framkomu hennar í sjónvarpsþáttum eða góðgerðarmálefnum, sem hún, sem aðalskona, styrkir. Örfá dæmi skulu nefnd: Árið 1997 lék Jodie, the Lady of the Lake, í Prince Valiant og fór með smáhlutverk árið 1999 í bresku kvikmyndinni „Mad Cows“. Árið 2000 reyndi hún að fá hlutverk í myndinni „Mission Impossible 2“, en fékk það ekki vegna hæðar sinnar, en talið var að hún myndi líta hræðilega illa út við hlið hins 170 cm „litla“ Tom Cruise. Jodie sagði við það tækifæri: „Mig hefir alltaf dreymt um að verða leikkona en umboðsmenn hafa sagt mér að enginn muni láta mig fá hlutverk vegna hæðar minnar.“

Árið 2003 hratt Jodie úr vör Marie Curie Daffodil Campaign með stuðningi gulu síðnanna á Bretlandi, til þess að safna fé til stuðnings krabbameinssjúkum.

Árið 2006 var hún dómari í þætti BBC „Only Fools on Horses“, sem eru þættir til stuðnings Sport Relief.

Árið 2008 kom Kidd fram í BBC sjónvarpsþættinum „Who Do You Think You Are?“ og tókst að rekja ættir sínar aftur til 17. aldar.

Í fyrra kom hún fram í breska þættinum: A Question of Sport, þ.e. þann 21. desember 2009.

Tengsl Jodie og Tiger
Jodie var ein af þeim, sem talin var að hafa átt í ástarsambandi við Tiger Woods. Sögusagnir þar um náðu hámarki í byrjun ársins 2010. Jodie viðurkenndi í blaðaviðtali að hafa hitt Tiger tvisvar en neitaði að hafa átt í nokkru ástarsambandi við hann. Hún sagði við það tækifæri: „Ég er mér meðvituð um sögusagnir um samband Tigers við breska sjónvarpskonu, en ég get fullvissað ykkur um að það er ekki ég. Jú, ég hef hitt Tiger tvisvar. Tilefnin tengdust í bæði skiptin golfi og hann virtist mjög viðkunnanlegur en við skiptumst varla á 3 orðum.“ Eins æfði hún púttin sín með Tiger eitt sinn í Leicester Square, í London vegna þess að verið var að auglýsa tölvuleik hans. Um þetta sagði Jodie: „Þetta var varla einkatími, sem hann gaf mér þó ég myndi gjarnan hafa þegið einn slíkan. Hann er frábær kylfingur.“

Jodie er ekki bara frambærilegur kylfingur sjálf, heldur stendur líka fyrir sínum eigin golfmótum til stuðnings góðum málefnum. Til þess að sjá m.a. lista yfir það fræga fólk og kylfinga, sem hún fær til að spila í árlegum Jodie Kidd Foundation Celebrity Golf day mótum sínum smellið HÉR:

Heimild: Wikipedia (að hluta)

Ofangreind grein greinarhöfundar hefir áður birtst með góðfúslegu leyfi hans á iGolf, 28. desember 2010.

Golf 1 óskar öllum kylfingum sem afmæli eiga í dag innilega til hamingju með afmælið!

Ef þið viljið koma að afmælisgrein eða láta afmæliskylfings getið í upptalningu kylfinga, sem eiga afmæli hafið samband við golf1@golf1.is