Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 8. 2011 | 14:00

Afmæliskylfingur dagsins: – Heiðar Davíð Bragason – 8. nóvember 2011

Afmæliskylfingur dagsins er Heiðar Davíð Bragason, GHD, en hann fæddist 8. nóvember 1977 og er því 34 ára í dag. Heiðar Davíð er þjálfari hins frábæra liðs telpna á Dalvík, 15 ára og yngri, sem urðu Íslandsmeistarar 2011 í sveitakeppni GSÍ – en þær eru einu Íslandsmeistarar, sem GHD hefir átt í sveitakeppni. Heiðar Davíð þjálfar þær ásamt Árna Jónssyni.

Stelpurnar þeirra Heiðars Davíðs og Árna Jóns (Árni er á myndinni með Íslandsmeisturunum)

Heiðar Davíð hefir gert ýmislegt og unnið marga sigra í golfíþróttinni. Sem dæmi mætti nefna að hann keppti á danska Scanplan túrnum 2007 og EDP-mótaröðinni 2008. Hann sigraði í Einvíginu á Nesinu 2008. Eins er eftirminnilegt þegar Heiðar Davíð setti glæsilegt vallarmet á Vatnahverfisvelli á 25 ára afmælismóti Golfklúbbsins Óss á Blönduósi í fyrra (2010) spilaði völlinn á -5 undir pari, 65 höggum. Vallarmetið stendur enn. Hann varð stigameistari á Norðurlandsmótaröðinni 2010 og er klúbbmeistari GHD 2009, 2010 og 2011. Heiðar Davíð er kvæntur Guðríði Sveinsdóttur og eiga þau einn son.

Golf 1 óskar afmæliskylfingnum innilega til hamingju með afmælið!

Aðrir frægir kylfingar sem eiga afmæli í dag eru m.a.: Beverly Klass, 8. nóvember 1956 (55 ára);  Francesco Molinari, 8. nóvember 1982 (29 ára); Kathleen Ekey, 8. nóvember 1986 (25 ára – komst á LPGA 2012 með því að vera efst á peningalista Duramed Futures Tour í ár)

Ef þið viljið koma að afmælisgrein eða láta afmæliskylfings getið í upptalningu kylfinga, sem eiga afmæli hafið samband við golf1@golf1.is