Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 1. 2011 | 16:00

Afmæliskylfingur dagsins: Gary Player – 1. nóvember 2011

Afmæliskylfingur dagsins í dag er ein af lifandi golfgoðsögnunum 3: Gary Player.

Gary Player fæddist 1. nóvember 1935 í Jóhannesarborg í Suður-Afríku og er því 76 ára í dag.

Gary sigraði 9 sinnum í risamótum á ferli sínum sem atvinnumaður í golfi:
Masters: 1961, 1974, 1978
Opna bandaríska: 1965
Opna breska: 1959, 1968, 1974
PGA Championship: 1962, 1972

Gary Player eftir sigur á Opna breska - einu af 9 risamótssigrum sinum.

Þessir 9 sigrar ásamt 9 sigrum hans á risamótum Champions Tour gera það að verkum að hann er álitinn einn af yfirburðakylfingum í sögu golfsins.  Gary Player var tekinn í frægðarhöll kylfinga (World Golf Hall of Fame) árið 1974. Gary hefir sigrað í 165 mótum í 6 heimsálfum á 6 áratuga ferli sínum sem kylfingur.

Á ævi sinni á hann að baki 15 milljóna mílu ferðalög, líklega meira en nokkur annar íþróttamaður.  Þessi stuttvaxni 1,70 m Suður-Afríkubúi, var á undan samtíð sinni í því að hann kom auga á mikilvægi þess að stunda líkamsrækt og nýta hvern einasta þráð þess líkama, sem Guð gaf honum (sjá myndskeið hér að neðan, þar sem golfsveifla þessa mikla meistara er skoðuð og golfsveilfuþjálfaragúrúar á borð við Butch Harmon tjá sig um hana).

Vegna líkamsræktaráráttu sinnar (sem í dag er sjálfsagður liður í prógrammi atvinnukylfinga) var Gary oft uppnefndur Mr. Fitness, en önnur viðurnefni sem hann fékk á löngum ferli voru „svarti riddarinn“ (ens.: Black Knight) og svo síðar vegna mikilla ferðalaga sinna „alþjóðlegi sendiherra golfsins“ (ens.: the International Ambassador of Golf).

Gary er viðurkenndur golfvallararkítekt og liggja eftir hann 300 golfvellir í heiminum, sem lagðir hafa verið eftir hugmyndum hans og hönnun. Eftir Gary Player hafa m.a. sportbarir og golfmót verið nefnd.

Viðskiptaveldi Gary Player heitir Black Knight International, en það hefir yfirumsjón með fyrirtækjum kappans: Gary Player Design, Player Real Estate, og Black Knight Enterprises, en fyrirtækin hafa m.a. á könnu sinni að veita leyfi, sjá um samkomur og uppákomur, fjölmiðla, vín, golfútbúnað og alls kyns minjagripi tengdum Gary Player.

Elvis Presley í golfkennslu hjá Gary Player

Gary Player hefir fengist við hrossarækt á: The Gary Player Stud Farm, en bú hans hefir hlotið alþjóðlega viðurkenningu fyrir framúrskarandi rækt á veðhlaupahestum, en einn frægasti hestur Gary er sá sem þátt tók í Epsom Derby, árið 1994, og hét „Broadway Flyer“.

En Gary Player, sem fékk svo mikið í lífi sínu, gefur líka tilbaka til samfélagsins.  Þannig rekur hann „The Player Foundation“ en meginmarkmið stofnunarinnar er að stuðla að menntun fátækra barna í heiminum.

Árið 1983 setti The Player Foundation á laggirnar Blair Atholl Schools í fæðingarbæ Garys, Jóhannesarborg í Suður-Afríku, en það er skólabygging sem hýsir meira en 500 börn allt frá dagheimilisaldri til 8. bekkjar.

Árið 2008 var haldið upp á 25 ára afmæli skólans með góðgerðargolfmótum í London, Palm Beach, Shanghai og Cape Town og söfnuðust yfir $30 milljónir, sem allt rann til reksturs skólans.

 

Nánar um æsku og fjölskyldu Gary Player
Eins og fyrr sagði fæddist Gary Player í Jóhannesarborg í Suður-Afríku, 1935, fyrir nákvæmlega 76 árum.

Hann var yngstur 3 barna Harry og Muriel Player. Gary var bara 8 ára gamall þegar móðir hans lést úr krabbameini. Faðir hans var oft fjarverandi vegna vinnu sinnar í gullnámu, fjölskyldan var ekki efnuð, en engu að síður tók Harry, faðir Gary lán til þess að geta keypt kylfur handa syni sínum, þannig að Gary litli hefði eitthvað að gera meðan hann væri í burtu.

Það var á Virginia Park golfvellinum í Jóhannesarborg sem ástarævintýri Gary og golfsins byrjaði.  Hann spilaði fyrsta golfhring sinn 14 ára og paraði fyrstu 3 holurnar. Tveimur árum síðar, aðeins 16 ára tilkynnti Gary að hann ætlaði sér að verða kylfingur nr. 1 í heiminum. Aðeins 17 ára gamall gerðist hann atvinnumaður í golfi.

Gary Player kvæntist konu sinni Vivienne Verwey (sem er systir atvinnumannsins Bobby Verwey) 19. janúar 1957, 5 árum eftir að hann gerðist atvinnumaður í golfi (sjá brúðkaupsmyndina af þeim hér til hægri). Saman eiga þau 6 börn:  Jennifer, Marc, Wayne, Michele, Theresu og Amöndu. Gary er líka orðinn 21 faldur afi. Á upphafsdögum ferils síns vakti Gary mikla athygli hvar sem hann kom, þar sem hann ferðaðist milli móta með eiginkonu, 6 börn, barnapíur og barnakennara í eftirdragi. Hann var frægur fyrir að vilja ekki ferðast nema fjölskyldan fylgdi.

Um samband sitt við eiginkonuna sagði Gary nýlega: „Þetta var ást við fyrstu sýn og ég elska konu mína meira í dag en ég hef nokkru sinni gert. Og ég met það sem hún hefir gefið mér sem eiginkona. Hún er dásamleg amma líka. Ég gæti aldrei hafa náð þeim árangri sem ég náði án þessarar góðu konu.“

Gary Player og eiginkonan, sem hann elskar yfir allt.

Rómansinn byrjaði fyrir 62 árum þegar Gary var bara 14 ára gamall. Pabbi Vivienne var golfkennari og fjölskylda hennar var í heimsókn hjá nágranna Gary, sem einnig var í golfi.  Það var bróðir Gary, sem fyrst sá 13 ára gömlu stúlkuna bakvið vegginn sem aðskildi húsin. „Bróðir minn sagði við mig: „Líttu yfir vegginn. Þarna er sæt stelpa, hún er æðisleg.“ Og á sama andartaki og Gary sá hana, vissi hann að hún væri sú eina.

„Fólki finnst erfitt að trúa þessu, en ég sagði samstundis við bróður minn Christopher, „ég ætla að kvænast þessari stúlku.“ Ég hafði ekkert kynnst henni, þessu var bara ætlað að vera, ég veit ekki hvernig ég á að lýsa því öðruvísi.“

Elsti sonur Gary, Marc Player er meðeigandi og rekstraraðili Black Knight International, sem hefir einkarétt á öllu viðkomandi Player auglýsingalega séð, þ.m.t. styrki, vörur, minnjagripi, golfvallarhönnun og fasteignir.

Loks mætti geta að hinn bróðir Gary, Dr. Ian Player, er heimsþekktur dýraverndunaraktívisti, en honum er m.a. þakkað að hafa bjargað hvíta nashyrningnum frá útrýmingu.

Gary hefir gert það besta úr þeim 76 árum sem hann hefir lifað og hann veitir kylfingum; ungum, sem öldnum hvarvetna um heim innblástur og er góð fyrirmynd!

Vinirnir Gary Player og Charlie Sifford.

Þess mætti kannski í lokin geta að þegar Charlie Sifford var vígður inní frægðarhöll kylfinga 2004, fyrstur blökkumanna, bað hann um að Gary Player sæi um vígsluathöfnina. Slík er virðingin sem Gary Player nýtur meðal blökkumanna, vegna stuðnings sinn við málstað blökkumanna í gegnum tíðina. Vegna þess góða líkamlega forms, sem Gary hefir og vann að alla tíð er hann enn að spila golf og er óskandi að hann geri það sem lengst !!!

Gary Player er í frábæru líkamlegu formi vegna líkamsræktar, sem hann stundaði alla tíð!

Heimild: Wikipedia (að hluta)

Ofangreind grein greinarhöfundar hefir áður birst á iGolf.is 1. nóvember 2010 – en birtist hér uppfærð og að nokkru breytt.
Aðrir frægir kylfingar sem eiga afmæli í dag eru:  Stephen Gallacher, f. 1. nóvember 1974 (37 ára);  Sara Ardstrom, 1. nóvember 1988 (23 ára).
Ef þið viljið koma að afmælisgrein eða láta afmæliskylfings getið í upptalningu kylfinga, sem eiga afmæli hafið samband við golf1@golf1.is