Ragnheiður Jónsdóttir | október. 3. 2011 | 12:00

Afmæliskylfingur dagsins: Fred Couples – 3. október 2011

Frederick Steven Couples fæddist í dag fyrir 52 árum, í Seattle, Washington.  Fred gerðist atvinnumaður í golfi árið 1980. Á ferli sínum sem atvinnukylfingur hefir hann sigrað í 52 skipti, þ.á.m. 14 sinnum á PGA túrnum, 3 á Evrópumótaröðinni og í 5 skipti á Champions Tour.

Einn frægasti sigur Fred er þegar hann vann Masters 1992, en það er eini risamótssigur hans, þó hann hafi orðið ofarlega í öðrum risamótum (T-3 á US Open 1991; T-3 á Opna breska 1991 og 2005 og í 2. sæti á PGA Championship 1990).

Couples hefir verið í fréttunum að undanförnu vegna vals hans, sem fyrirliða liðs Bandaríkjanna á 2 kylfingum, sem hann á rétt á sem fyrirliði að velja á Presidents Cup 2011. Couples valdi sem kunnugt er Tiger Woods og Bill Haas í lið sitt.

Fred Couples var einnig fyrirliði hins sigursæla Presidents Cup liðs Bandaríkjanna árið 2009.

Afmæliskylfingurinn okkar hefir uppnefnið „Boom Boom” vegna langra dræva sinna.  Hann var sjálfur í fréttunum í ágúst s.l. vegna þess að þá vann hann í fyrsta sinn Senior Player Championship.

Aðrir frægir kylfingar, sem eiga afmæli í dag eru m.a.: Jack Wagner, f. 3. október 1959; Ásta Sigurðardóttir, GOS, f. 3. október 1965 og Íris Dögg Steinsdóttir, GS, 3. október 1973