Ragnheiður Jónsdóttir | október. 23. 2011 | 12:00

Afmæliskylfingur dagsins: Chi Chi Rodriguez – 23. október 2011

Afmæliskylfingurinn okkar í dag er Juan Antonio Chi Chi Rodriguez, en hann fæddist  23. október 1935, í Rio Piedras á Puerto Rico og er því 76 ára í dag. Hann er sonur fátækra hjóna og var einn 6 systkina. Faðir hans hlaut aðeins $ 18 (um 2000 krónur) í vikulaun sem verkamaður og fjársölumaður.

Chi Chi var aðeins 7 ára gamall þegar hann fór að leggja til heimilisins með því að bera vatn á sykurreyrplantekrum. Dag einn villtist Chi Chi litli inn á golfvöll en sá fljótlega að caddy-ar hlutu hærri laun en hann og ákvað að verða caddy.

Sem barn tók Chi Chi grein af guava-trénu og bjó sér sjálfur til kylfu úr henni. Hann notaði járndós sem “golfkúlu” og æfði það sem hann sá “alvöru” kylfingana gera og kenndi sjálfum sér að spila golf. Þegar hann var 9 ára var hann orðinn ágætiskylfingur og við 12 ára aldur var hann farinn að koma inn á 67 höggum.

Árið 1954, þá 19 ára gekk hinn 1,70 m hái og 68 kg þungi Chi Chi, í herinn. Í öllum frístundum sínum spilaði hann golf og reyndi að fullkomna golfleik sinn.

Chi Chi með persónutöfrana sína, sem eru svo einkennandi fyrir hann, sagði oft gamansögur í léttum dúr um erfiðleika liðinna ára; t.d. átti hann til að spyrja: “Hversu löng eru dræv John Daly?”, “Þegar ég var barn, fór ég ekki einu sinni svo langt að heiman í frí.” … og “Að spila golf er ekki erfiðisvinna. A skera sykurreyr fyrir 1 dollar á dag – það er erfiðisvinna. Erfiðari en að eignast fyrsta armbandsúrið sitt.” (Playing golf is not hot work. Cutting sugar cane for a dollar a day – that´s hot work. Hotter than my first wrist watch.)

Chi Chi gerðist atvinnumaður í golfi árið 1960. Sem atvinnumaður hefur hann unnið 38 sigra, 8 í PGA-mótaröðinni á árunum 1963-1979 og 22 sigra á Champions-tour. Besti árangur hans á risamótum var að vera jafn öðrum í 10. sæti (T-10) á Masters 1970, sigur á Masters 1973, hann varð jafn öðrum í 6. sæti (T-6) á Opna bandaríska 1981; hann varð jafn öðrum í 28. sæti (T-28) á Opna breska, 1973 og jafn öðrum í 15. sæti (T-15) á PGA Championship, árið 1969.

Uppáhalds sigur Chi Chi, á PGA-mótaröðinni, er þegar hann vann Denver Open árið 1963.

Í fyrstu setti Chi Chi alltaf hatt sinn yfir holuna þegar hann náði fugli eða erni. Eftir að honum barst til eyrna að aðrir kylfingar væru að kvarta yfir þessu, ákvað hann að reyna eitthvað nýtt. Hann þróaði “toreador dansinn” sem var einkenni hans, en þar lék hann það að golfboltinn væri nautið og pútterinn hans sverðið og að hann deyddi “nautið”. Chi Chi var fulltrúi Puerto Rico í 12 heimsbikars- (World Cup) liðum.

Chi Chi spilaði frá árinu 1985 á bandarísku mótaröð eldri kylfinga, “Senior PGA Tour” sem einnig gengur undir heitinu “Champions-tour”. Hann vann 22 sigra á árunum 1986-1993 á þeim túr. Hann varð fyrsti kylfingurinn á Senior PGA-túrnum til þess að vinna sama mót 3 ár í röð. Hann setti met þegar hann setti niður 8 fugla í röð á Silver Pages Classic-mótinu, árið 1987.

Chi Chi hefur hlotið ýmsar viðurkenningar. Árið 1986 hlaut hann Hispanic Recognition Award og árið 1988 var hann útnefndur Replica´s Hispanic Man of the Year. Árið 1989 hlaut Chi Chi, Bob Jones-viðurkenninguna, sem er æðsta viðurkenning sem bandaríska golfsambandið, USGA (United States Golf Association) veitir vegna framúrskarandi íþróttamennsku innan golfíþróttarinnar. Sama ár hlaut Chi Chi, Old Tom Morris-viðurkenninguna, sem er æðsta viðurkenning GCSAA (Golf Course Supeintendendents Association of America. Árið 1991 tapaði hann 18 holu umspili við goðsögnina Jack Nicklaus á Opna bandaríska móti eldri kylfinga. Og loks hlaut Chi Chi inngöngu í frægðarhöll kylfinga (World Golf Hall of Fame), fyrstur kylfinga frá Puerto Rico.

Eitt sinn hitti Chi Chi móður Teresu. Hann álítur þann fund einn af stærstu augnablikum lífs síns. Hann varð svo innblásinn af fundinum að hann ákvað að hjálpa öðrum. Hann stofnaði “Chi-Chi Rodriguez Youth Foundation” ásamt atvinnukylfingunum Bill Hayes og Bob Jones, en þetta er prógramm eftir skólatíma fyrir krakka á Glen Oaks golfvellinum í Clearwater, í Flórída. Aðalhugmyndin með stofnsetningu prógrammsins er að auka sjálfstraust ungs fólks sem eru fórnarlömb misnotkunar, hafa komist í tæri við lögin vegna smáafbrota eða hafa orðið fyrir öðru harðræði.

Seinni ár hefur Chi Chi m.a. fengist við golfvallahönnun eins og goðsögnin Jack Nicklaus, þótt í mun minna mæli sé.  En hann hefur t.a.m. hannað Dorado del Mar völlinn á Puerto Rico, sem er með betri völlum þar.

Chi Chi hefur séð vel um stórfjölskyldu sína; þannig gaf hann móður sinni t.a.m. hús og hefur veitt systkinum sínum, bræðrum og systrum, fjárhagslegan stuðning.

Í október 1998 hlaut Chi Chi hjartaslag. Hann fór í hjartaþræðingaraðgerð og lét fjarlægja hjartastíflu og náði sér. Chi Chi á eiginkonu og eina dóttur.

Aðrir frægir kylfingar sem eiga afmæli í dag eru: Harvey Morrison Penick, f. 23. október 1904 – 2 apríl 1995);  James Evangelo Nitties, f. 23. október 1982 (29 ára) og  Michael Sim, 23. október 1984 (27 ára); Óðinn Þór Ríkharðsson, GKG, 23. október 1997 (14 ára).

Ef þið viljið koma að afmælisgrein eða láta afmæliskylfings getið í upptalningu kylfinga, sem eiga afmæli hafið samband við golf1@golf1.is

Heimild: Wikipedia – Þessi grein í þýðingu greinarhöfundar hefir áður birst á iGolf.is þann 28. janúar 2010.