Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 24. 2011 | 12:00

Afmæliskylfingur dagsins: Auðunn Einarsson – 24. nóvember 2011

Það er Auðunn Einarsson, GÍ, sem er afmæliskylfingur dagsins. Auðunn fæddist 24. nóvember 1975 og er því 36 ára í dag. Auðunn er klúbbmeistari Golfklúbbs Ísafjarðar 2011. Hann varð Íslandsmeistari í sveitakeppni GSí, með liði GK, árið 2008… og þá er aðeins fátt eitt talið af afrekum Auðunns í golfíþróttinni.

Auðunn er mörgum að góðu kunnur sem frábær golfkennari, var lengi starfandi hjá Golfklúbbnum Keili en eftir ársdvöl í Ástralíu sneri hann aftur til heimabæjarins, Ísafjarðar, í fyrra, þar sem hann kennir nú golf. Auðunn hefir keppt í fjölmörgum opnum mótum og alþjóðlegum mótum. Hann reyndi m.a. fyrir sér á sænsku mótaröðinni 2007.

Foreldrar Auðuns eru: Einar Valur Kristjánsson, fv. yfirkennari í Grunnskóla Ísafjarðar og Guðrún Eyþórsdóttir, sem bæði eru látin. Kona Auðuns er Kristín Rúnarsdóttir.

Golf 1 óskar afmæliskylfingnum innilega til hamingju með afmælið!

Aðrir frægir kylfingar sem eiga afmæli í dag eru m.a.: Simone Thion de la Chaume, 24. nóvember 1908; Sigurbjörn Svavarsson, 24. nóvember 1949 og Sólveig Sigurjónsdóttir, GA, 24. nóvember 1961.

Ef þið viljið koma að afmælisgrein eða láta afmæliskylfings getið í upptalningu kylfinga, sem eiga afmæli hafið samband við golf1@golf1.is