Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 22. 2012 | 13:00

Afmæliskylfingur dagsins: Alfreð Brynjar Kristinsson – 22. janúar 2012

Afmæliskylfingur dagsins er Alfreð Brynjar Kristinsson, GKG. Hann fæddist 22. janúar 1985 og er því 27 ára í dag.

Alfreð Brynjar Kristinsson ásamt Ingunni Gunnarsdóttur - klúbbmeistarar GKG 2011.

Alfreð Brynjar kemur úr mikilli golffjölskyldu; sonur hjónanna Kristins J. Gíslasonar, verkfræðings og Elísabetar M. Erlendsdóttur, ljósmóður. Alfreð á 4 systkini, Elínborgu, Lóu Kristínu, Kristinn Jósep og Ólafíu Þórunni, en síðastnefnda systir Alfreðs Brynjars er  3-faldur Íslandsmeistari í golfi 2011 og stundar nú nám og er  í golfliði Wake Forest háskólans í Bandaríkjunum, sem þykir einn allrabesti golfháskólinn.

Alfreð Brynjar bjó í Danmörku í 10 ár. Hann byrjaði 12 ára gamall í golfi, vegna þess að hann vildi spila við föður sinn, Kristinn, sem alltaf var í golfi og eins var eldri bróðir hans Kristinn Jósep, mikil fyrirmynd. Aðrar íþróttir, sem Alfreð Brynjar lagði stund á voru handbolti (með Aftureldingu) og frjálsar.  Alfreð Brynjar var kominn í unglingalandsliðið í golfi aðeins 3 árum eftir að hann byrjaði að spila golf og eftir það snerist allt um golf.

Alfreð Brynjar á Íslandsmótinu í höggleik í Leirunni, 24. júlí 2011. Mynd: Golf 1.

Meðal helstu afreka Alfreðs Brynjars er að verða klúbbmeistari unglinga í GKJ. Eins er hann klúbbmeistari GKG 2009 og 2011.  Alfreð Brynjar varð tvívegis klúbbmeistari unglinga í Himmerland GCC í Danmörku; vann Handelsskolemesterskabet í Danmörku; fór holu í höggi í Scottish Youth Championships, 17. júní 2005; spilaði í liði St. Andrews Presbyterian College, NC, í Bandaríkjunum; var kjörinn leikmaður ársins 2007-2008 af háskóla sínum eða “Most outstanding player in Mens Golf 2007-2008“ og vann sinn fyrsta sigur á Kaupþingsmótaröðinni á Akranesi, í móti  19.-20. maí 2007. Þjálfarar allra skóla í Conference Carolinas kusu hann „All Conference HONORABLE MENTION Men´s Golf 2008.“ Alfreð Brynjar var í 3. sæti á stigalista GSÍ 2008;  stigameistari GSÍ 2009 og er í afrekshóp GSÍ 2012.

Aðrir frægir kylfingar sem eiga afmæli í dag eru:  Becky Pearson, 22. janúar 1956 (56 ára);  Barb Thomas Whitehead, 22. janúar 1961 (51 árs);  Paul Baltahazar Getty, 22. janúar 1975 (37 ára).

F. 22. janúar 1968 (44 ára)
 
F. 22. janúar 1979 (33 ára)

F. 22. janúar 1973 (39 ára)

F. 22. janúar 1959 (53 ára)
Golf 1 óskar afmæliskylfingnum, sem og öllum kylfingum sem afmæli í dag eiga innilega til hamingju með afmælið!
Ef þið viljið koma að afmælisgrein eða láta afmæliskylfings getið í upptalningu kylfinga, sem eiga afmæli hafið samband við golf1@golf1.is